VistÍs 2024 og votlendisrannsóknir Lands og skógar
7. maí 2024
Á ráðstefnu Vistfræðifélags Íslands (VistÍs) sem haldin var í nýliðnum mánuði kynnti vísindafólk frá Landi og skógi niðurstöður rannsókna á sambandi vatnshæðar og koltvísýringslosunar íslenskra mýra ásamt áhrifum breyttrar landnotkunar og vatnshæðar á mosa.
Ráðstefna Vistfræðifélagsins sem haldin er árlega fór að þessu sinni fram 5. apríl 2024 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Ráðstefnan var skipulögð í samstarfi við Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. Nokkrir starfsmenn Lands og skógar sóttu ráðstefnuna.
Fjöldi áhugaverðra og fróðlegra erinda var á dagskrá ráðstefnunnar. Viðfangsefnin voru líffræðileg fjölbreytni, þurrlendisvistfræði, sjávarvistfræði, fiskavistfræði og verndarlíffræði. Einnig var fjallað um atferlisvistfræði fugla.
Starfsmenn Lands og skógar kynntu tvö veggspjöld um niðurstöður votlendisrannsókna. Annars vegar kynntu Vigdís Freyja Helmutsdóttir, Ölvir Styrmisson, Sunna Áskelsdóttir og Ágústa Helgadóttir fyrstu niðurstöður sínar á sambandi vatnshæðar og koltvísýringslosunar íslenskra mýra í mismunandi raskástandi, það er að segja náttúrulegra, framræstra og endurheimtra mýra.
Veggspjald: Water table height as a predictor of peatland respiration
Ágústa Helgadóttir, Vigdís Freyja Helmutsdóttir og Sunna Áskelsdóttir gerðu gróðurúttektir á mýrum í mismunandi ástandi á SV-landi, en fyrstu niðurstöður þeirra benda til þess að mosar séu viðkvæmir fyrir breytingum á vatnshæð og landnotkun. Þéttleiki og tegundasamsetning þeirra gæti því verið vísir á raskástand íslenskra mýra.
Veggspjald: Biodiversity changes in drained Icelandic peatlands
Heimild: Björk Sigurjónsdóttir og Vigdís Freyja Helmutsdóttir