Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Við munum endurheimta vistkerfi okkar

2. september 2024

Landgræðsluskóli GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, brautskráði nemendur í sautjánda sinn 27. ágúst við athöfn í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands að Keldnaholti. Að þessu sinni voru í fyrsta sinn brautskráðir nemendur frá Kenía en alls voru nemendurnir frá níu löndum í Afríku og Mið-Asíu. Námið gefur alþjóðlegar ECTS-einingar sem nýta má í frekara námi við til dæmis Landbúnaðarháskóla Íslands.

Nemendur landgræðsluskóla GRÓ við vettvangsnám á rofnu landi. Ljósmynd: Rán Finnsdóttir

Í þessum árgangi voru nemendur frá Gana, Kenía, Kirgistan, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Nígeríu, Úsbekistan og Úganda. Við brautskráninguna flutti Martin Eyj­ólfs­son, ráðu­neyt­is­stjóri utan­rík­is­ráðu­neyt­isins, ávarp ásamt starfandi framkvæmdastjóra GRÓ, Berglindi Orradóttur. Sérfræðingar hjá Landi og skógi gegna stóru hlutverki við kennsluna og leiðbeindu meðal annars fjórum nemendum í einstaklingsverkefnum.

Ánægðir nemendur

Ávörp fluttu líka tveir fulltrúar nemenda, Mercy Nyambura Ngure frá landgræðsludeild ráðuneytis vatns, áveitumála og hollustuhátta í Kenía, og Doston Tuvalov frá Samarkand-ríkisháskólanum í Úsbekistan.

Doston Tuvalov lýsti upplifun sinni af náminu sem hefði gefið honum algerlega nýja sýn á þau miklu og víðtæku áhrif sem landhnignun getur haft á bæði umhverfið, efnahagslífið og samfélög fólks. Yfirgripsmikil þekking Íslendinga og góðar aðferðir sem hér hafa verið þróaðar gætu nýst annars staðar til að hamla gegn ógnum landhnignunar og snúa þróuninni til hins betra, hvort sem það væri á smærri eða stærri svæðum ellegar á alþjóðlegum vettvangi. Þess má geta að við einstaklingsverkefni sitt naut Doston handleiðslu tveggja sérfræðinga Lands og skógar í verkefninu GróLind, Bryndísar Marteinsdóttur og Ránar Finnsdóttur, en þriðji sérfræðingur verkefnisins, Jóhann Helgi Stefánsson, kenndi líka við skólann í sumar ásamt fleirum frá Landi og skógi.

Mercy Nyambura Ngure tók undir orð Dostons og lagði sérstaka áherslu á hversu mikilvæg sú þjálfun sem nemendurnir hlutu í landgræðsluskólanum yrði í því starfi sem nemendanna biði heima fyrir á komandi árum. Í þeirri glímu yrði gott að hugsa til þess hvernig harðgert birkið þraukar við erfið skilyrði á Íslandi. „Og já, við getum, og við munum, endurheimta vistkerfi okkar,“ bætti hún við.

Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, afhenti nemendum prófskírteinin og naut aðstoðar rektors Landbúnaðarháskóla Íslands, Ragnheiðar I. Þórarinsdóttur, sem einnig ávarpaði gesti við lok brautskráningarinnar. Af hópi brautskráðra nema kom tuttugu og einn á vegum samstarfsstofnana GRÓ í Afríku og Mið-Asíu, en tveir nemendur sóttu skólann með stuðningi UNESCO MAB World Network of Biosphere Reserves, sem er sérstakt samstarf UNESCO, menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, um auðlindir lífhvolfsins. Annar þeirra starfar við verndar- og gróðurauðlindaverkefni undir hatti UNESCO í Gana og hinn hjá skógvísindastofnun Nígeríu. Námsstuðningur sem þessi er árlega veittur tveimur ungum sérfræðingum.

Útikennsla í Kjós, Vindáshlíð í baksýn til hægri. Ljósmynd: Jóhann Helgi Stefánsson

Nám sem gefur möguleika

Þetta er þriðja árið sem nemendur brautskráðir úr landgræðsluskólanum GRÓ eiga rétt á alþjóðlegum ECTS-einingum fyrir nám sitt við skólann. Það gerir þeim kleift að stunda framhaldsnám í endurheimt vistkerfa og sjálfbærri landnýtingu (30 ECTS) við deild náttúru og skógar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Frá því að alþjóðlegt landgræðslunám hófst á Íslandi árið 2007 hefur 221 sérfræðingur í endurheimt vistkerfa og sjálfbærri landnýtingu lokið hálfs árs námi í faginu. Gott kynjajafnvægi er í þessum hópi því 53% nemenda hafa verið karlar og 47% konur. Nemendur hafa komið frá fimmtán samstarfslöndum.

Um námið

  • Íslendingar reka GRÓ, þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, fyrir hönd UNESCO.

  • Auk landgræðsluskólans er rekinn sjávarútvegsskóli, jafnréttisskóli og jarðhitaskóli.

  • Landgræðsluskóli GRÓ er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Lands og skógar.

  • Markmiðið er að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum sem glíma við gróður- og jarðvegseyðingu og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga.

Námið tekur hálft ár eða sex mánuði og nemendur eru frá þróunarlöndum sem standa frammi fyrir landeyðingu og neikvæðum afleiðingum hennar á efnahag, samfélög og umhverfi. Mestur hluti kennslunnar fer fram í húsakynnum Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti en einnig í vettvangsvinnu. Náminu lýkur með kynningu á rannsóknaverkefnum sem nemarnir vinna að á meðan þeir dvelja hér á landi.

Útskriftarhópur landgræðsluskóla GRÓ 2024. Ljósmynd af grocentre.is