Vertu með að vakta landið!
4. júlí 2025
Almenningi um allt land gefst kostur á að taka þátt í verkefninu Landvöktun og fylgjast með þróun gróðurfars og jarðvegs á sínu svæði. Þar með getur fólk lagt sitt af mörkum til að vernda gróðurauðlindir landsins.

Landvöktun - lykillinn að betra landi er svokallað lýðvísindaverkefni sem gerir landeigendum og öðrum áhugasömum kleift að kynnast landinu sínu á nýjan hátt. Með þátttöku sinni getur fólk fylgst með þróun gróðurfars og jarðvegs á sínu svæði og einnig haft áhrif á hvernig ástand landsins breytist í framtíðinni. Það gefur fólki færi á að læra um landið sitt og um leið möguleika til að leggja sitt af mörkum til að bæta landið.
Verkefnið fer fram með einföldum hætti. Þátttakendur ákveða sjálfir hvaða land þeir vakta og sinna vöktuninni á þeim tíma sem hentar þeim best. Snjallsímar eru notaðir til þess að skrá upplýsingar um ástand gróðurfar og jarðvegs. Þessi gögn eru síðan nýtt, ásamt öðrum gögnum, til að meta ástand landsins og bæta ákvarðanir sem snúa að sjálfbærri landnýtingu og endurheimt landgæða þar sem þörf er á.
Nánari upplýsingar er að finna á vef Grólindar, www.grolind.is/landvoktun. Einnig veitir Jóhann Helgi Stefánsson upplýsingar í síma 866 7119 eða í tölvupósti á netfangið johannhelgi@logs.is.
