Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Véladeildin í Gunnarsholti lagar vegi í Þjórsárdalsskógi

15. september 2025

Ráðist var í löngu tímabærar vegabætur í þjóðskóginum Þjórsárdal í síðustu viku. Þar nýttist vélakostur og mannskapur Lands og skógar í Gunnarsholti afskaplega vel og sparaði bæði tíma, fé og fyrirhöfn.

Lagfærðir voru stofnvegirnir að Ásólfsstaða- og Skriðufellsskógi á um tveggja kílómetra köflum. Vegirnir voru orðnir mjög grófir og lítið efni orðið eftir í þeim, að sögn Jóhannesar H Sigurðssonar, aðstoðarskógarvarðar á Suðurlandi. Efni í vegina var tekið úr malarnámu á Þjórsáreyrum í landi Ásólfsstaða þaðan sem stuttur akstur var í þessa tvo vegi.

Jóhannes segir mikið hagræði hafa skapast með sameiningu stofnananna sem mynduðu Land og skóg því nú sé stofnunin með tæki til að ráðast í aðgerðir sem þessar án þess að kalla þurfi til verktaka með ærnum tilkostnaði, tíma og fyrirhöfn.

Hann segir að verkið sé mjög vel unnið. Vegabæturnar bæta mjög vinnuaðstöðuna í skóginum auk þess sem minna álag verður á ökutæki, kerrur, fólk og flutning.