Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Úr trjákynbótum í mublu á minna en starfsævi

13. maí 2024

Þótt aðeins séu liðin tæp 37 ár frá því að þær kynbætur hófust á lerki sem leiddu af sér hinn vaxtarmikla Hrym hefur þessi blendingur þegar gefið af sér smíðavið sem nýtilegur er í húsgagnasmíði.

Kaffiborð úr viði lerkiblendingsins Hryms

Þetta kynbótastarf hófst undir forystu Þrastar Eysteinssonar skógerfðafræðings sem síðar varð skógræktarstjóri og lét af störfum um síðustu áramót. Nú má segja að þetta starf hafi náð merkum áfanga sem er ekki síst skemmtilegt fyrir þær sakir að Þröstur sjálfur hefur smíðað borð úr viði lerkiblendingsins Hryms.

Í skeyti til Lands og skógar bendir Þröstur á að eiginlega hafi hann komið að öllum þáttum þessa litla kaffiborðs sem meðfylgjandi myndir sýna. Hann skrifar:

Ég nam trjákynbætur við háskólann í Maine. Þegar heim var komið valdi ég plústré og græddi sprota af þeim á rót, ræktaði upp í gróðurhúsi og kom þeim til að blómstra. Svo tók ég að mér hlutverk vindsins og stýrði víxlun á milli þessara völdu rússalerki- og evrópulerkitrjáa. Úr varð fræ og tré vaxin upp af því kallast nú yrkið ´Hrymur´. Plöntur vaxnar upp af fyrstu fræjunum gróðursetti ég í tilraunir árið 1999. Árið 2022 var fyrsta tilraunin grisjuð og lökustu trén fjarlægð. Hrymur vex hins vegar svo vel að jafnvel sum lökustu trén voru með nógu beina og svera boli til að fletta, 23 ára gömul. Þeir bolir voru flettir og þurrkaðir á Hallormsstað. Svo „smeið“ ég þetta borð úr þeim.

Að sjálfsögðu gerði ég þetta ekki einn (nema lokahnykkinn), því að þessu öllu kom margt starfsfólk Skógræktar ríkisins, síðan Skógræktarinnar. Ég er bara svo heppinn að hafa fengið að vinna með því frábæra fólki, og ekki síst þakklátur.

Þröstur segir að viðurinn sé eins og annar lerkiviður, þyngri og þéttari en fura eða greni. Þó sé þessi viður léttari en viður hægvaxta lerkis. Hluti borðanna vatt svolítið upp á sig, segir hann, eins og gjarnan gerist með grisjunarvið ungra trjáa, en sprakk ekkert. Litur kjarnviðarins sé ljóskaramellubrúnn (eins og ljósar Töggur) og muni eflaust dökkna með tímanum eins og annar viður.

Lífleg platan á kaffiborðinu sem Þröstur Eysteinsson hefur smíðað úr Hrymsviði. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson