Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Um ein milljón birkiplantna í Bonn-verkefnin í sumar

23. júní 2025

Gróðursett verður víða um land þetta sumarið í svokölluð Bonn-verkefni þar sem unnið er að endurheimt birkiskóga, meðal annars við Ásbyrgi, á Hólasandi, í Þorláksskógum, á Eyvindastaðaheiði, í Þjórsárdal og við Leiðvallargirðingu í Meðallandi. Alls verður sett niður um ein milljón birkiplantna en einnig verða gerðar tilraunir með að setja niður víðistiklinga til að örva sjálfgræðslu gulvíðis og loðvíðis. Erlend sjónvarpsstöð vinnur að gerð þáttar um þessi verkefni

Berglind Guðjónsdóttir stýrir Bonn-verkefnunum hjá Landi og skógi. Hún sendi vef Lands og skógar eftirfarandi upplýsingar um verkefni sumarsins og einnig myndirnar sem hér fylgja. Á efstu myndinni er myndatökumaður CFTN-sjónvarpsstöðvarinnar ásamt tveimur starfsmönnum Lands og skógar, þeim Samson Bjarnari Harðarsyni og Hreini Óskarssyni.

Á síðustu árum hefur áhersla stjórnvalda á vernd og endurheimt birkiskóga aukist mikið, meðal annars vegna loftslagsáætlunar, nýrrar landgræðslu- og skógræktarstefnu (Land og líf) og þátttöku Íslands í Bonn-áskoruninni. Markmiðið er að leggja grunn að endurheimt birkiskóglendis og birkikjarrs á 5% af flatarmáli landsins fyrir árið 2030. Hekluskógarverkefnið, eitt umfangsmesta endurheimtarverkefni Evrópu, hófst árið 2007 og nær yfir 100.000 hektara við Heklu. Markmiðið er tvíþætt, endurheimt birkiskóga og vernd lands gegn öskufoki og jarðvegseyðingu eftir eldgos.

Þeir sem hafa komið að gróðursetningu í Hekluskógum í maí og júní hafa þurft að glíma við fjölbreyttar veðuraðstæður, en þrátt fyrir það hefur verkið gengið vel. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir.

Þeir sem hafa komið að gróðursetningu í Hekluskógum í maí og júní hafa þurft að glíma við fjölbreyttar veðuraðstæður, en þrátt fyrir það hefur verkið gengið vel.

Aðferðafræði Hekluskógaverkefnisins byggist á því að friða land fyrir beit, sá harðgerðum grastegundum ásamt áburði og gróðursetja birki og víði í lundi sem verða fræuppsprettur. Þar sem náttúruleg sjálfgræðsla er ekki möguleg eru um 400 plöntur gróðursettar á hvern hektara. Verkefninu sjálfu lauk formlega árið 2023 en það heldur þó áfram undir stjórn Lands og skógar og er fyrirmynd fyrir önnur endurheimtarverkefni á vegum Bonn-áskorunarinnar.

Delta Forest er alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Frakklandi sem sérhæfir sig í stórum gróðurvernd- og endurheimtarverkefnum í Frakklandi, Bretlandi og Íslandi. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir

Í sumar sér franska fyrirtækið Delta Forest um að gróðursetja um 500.000 birkitré í Hekluskógum og 20.000 birkitré í Þorláksskógum. Starfið hófst við krefjandi aðstæður í hitabylgju í maí en gróðursetning hefur annars gengið vel. Auk tilbúins áburðar sem fylgir hverju tré hefur einnig verið prófað að nota smárafræ á sumum svæðum sem framtíðaruppsprettu köfnunarefnis fyrir birkið. Delta Forest er alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Frakklandi sem sérhæfir sig í stórum gróðurverndar- og endurheimtarverkefnum í Frakklandi, Bretlandi og á Íslandi.

Alls verður um ein milljón birkiplantna gróðursett víða um land í ár, þar á meðal við Ásbyrgi, á Hólasandi, í Þorláksskógum, á Eyvindastaðaheiði, í Þjórsárdal og við Leiðvallargirðingu í Meðallandi. Um 90.000 birkiplöntur voru afhentar verkefnunum Bændur græða landið og Landbótasjóði og 40.000 birkiplöntur fóru til landeigenda í Hekluskógum.

Hítardalur þar sem græðlingum af víði var safnað fyrir svæðin í kring sem eru gisnari. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir

Þá hafa einnig verið gerðar prófanir í vor með gróðursetningu gulvíði- og loðvíðisstiklinga í Þjórsárdal og Hítardal til að meta gagnsemi þeirra í sjálfgræðslu. Í byrjun júní heimsótti sjónvarpsstöðin CGTN Hekluskóga og Þórsmörk og tók upp heimildarþátt um endurheimt íslenskra birkiskóga sem verður góð landkynning um leið. Myndin að ofan er úr Hítardal þar sem græðlingum af víði var safnað fyrir svæðin í kring sem eru gisnari. Að neðan sést svo uppgræðslusvæði í Hítardal, þar sem gróður er farinn að gisna en yfirborð stöðugt, tilvalið fyrir víðigræðlinga með beinni stungu. Neðsta myndin er svo af tilklipptum víðistiklingi.

Uppgræðslusvæði í Hítardal, þar sem gróður er farinn að gisna en yfirborð stöðugt, er tilvalið fyrir víðigræðlinga með beinni stungu. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir.

Við vonum að sumarið verði hagstætt fyrir afkomu birkisins og víðisins sem plantað verður í ár og verði grunnur að endurheimt sjálfbærra og fjölbreyttra birkiskóga til framtíðar.

Víðistiklingar tilklipptir. Ljósmynd: Berglind Guðjónsdóttir