Timbur úr héraði í Árböðin
22. janúar 2025
Aðstandendur nýs baðlóns sem nú er unnið að í Laugarási Biskupstungum óskuðu eftir því að heimafengið timbur yrði nýtt í framkvæmdina. Land og skógur hefur nú afhent níu búnt af flettum og meðhöndluðum úrvalsviði úr greni sem aflað var í Haukadal en unnið í sögunarmyllu stofnunarinnar í Þjórsárdal.


Timbrið sem notað er í verkið er úr sömu fellingu og timbrið sem nýtt var til lagfæringa á gönguleiðum á Þingvöllum fyrir nokkru. Það kemur úr grenireit sem þurfti að fella í Haukadalsskógi og var óstöðugur vegna þess hvernig staðið var að undirbúningi gróðursetningar á sínum tíma. Reiturinn verður nú endurnýjaður, með sjálfsáningu grenis og furu sem þegar er komin af stað en gróðursett verður í eyður eftir þörfum.
Jóhannes H. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, og Magnús Fannar Guðmundsson skógarhöggsmaður unnu timbrið á haustdögum. Síðasti hluti verksins fólst í að hefla timbrið og mála.


Að sögn Trausta Jóhannssonar, skógarvarðar á Suðurlandi, var þetta mjög lærdómsríkt ferli, enda þurfti að vanda vel valið á bolviðnum til þess að efnið stæðist þær kröfur sem til þess eru gerðar. Við vinnu sem þessa sést vel mikilvægi þess að sinna umhirðu á skógunum yfir alla vaxtarlotuna, segir Trausti. Ekki sé nóg að gróðursetja, bíða svo í 60-70 ár og búast við því að fá gæðavið. Frásögun, íbætur, tvítoppaklippingar, uppkvistun og grisjun séu allt aðgerðir sem auki virði trjánna og spari tíma við lokahögg og auki nytjar skógarins. Með öðrum orðum er góð skógarumhirða allan vaxtartíma skógarins mjög mikilvæg og skilar sér í meiri verðmætum þegar upp er skorið.
Framkvæmdir við Árböðin í Laugarási hófust í fyrravor og þá var áætlað að böðin yrðu opnuð fyrir sumarið 2025. Arkitektastofan T.ark sá um hönnun lónsins og þess sem því heyrir til en Byggingafélagið Mannverk sér um framkvæmdirnar og hönnunarstýringu verksins. Lónið verður við Iðubrú í Laugarási, skammt frá dýragarðinum Slakka. Áætlaður kostnaður er kringum tvo milljarða króna og áætlað er að gestir verði á bilinu 150 til 200 þúsund á ári. Baðsvæði verður á tveimur stöllum með gufuböðum sem hituð verða með heimafengnum jarðvarma úr uppsprettu í þorpinu. Þar verður líka köld laug með heimafengnu jökulvatni. Í takti við það hafa aðstandendur lónsins gert kröfur um að heimafengnar skógarafurðir verði notaðar í mannvirkið og þar kemur grenið frá Landi og skógi til skjalanna, upp vaxið í Haukadal og unnið í Þjórsárdal.

