Tilgátuvefsjá um kortlagningu ræktunarlands til umsagnar
20. júní 2025
Grunnflokkun á ræktarlandi sem hentar til matvælaframleiðslu liggur nú fyrir og opnuð hefur verið sérstök tilgátuvefsjá sem kynnt var á fundi sem Samband íslenskra sveitarfélaga hélt nýverið. Gera má athugasemdir við upplýsingarnar í tilgátuvefsjánni til 30. júní.

Alþingi samþykkti í fyrravor Landskipulagsstefnu fyrir árin 2024 til 2038 og henni fylgdi fimm ára aðgerðaráætlun til ársins 2028. Þar er meðal annars kveðið á um að kortleggja skuli ræktarland sem hentar til matvælaframleiðslu. Verkefnið var sett á forræði Lands og skógar en verkfræðistofunni Eflu falið að vinna að því. Frá þessu segir í frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Nú er tilbúin grunnflokkun fyrir landbúnaðarland og landupplýsingagrunnur þar sem land er flokkað í fjóra flokka auk takmarkana sem felast í landi sem ekki hentar til ræktunar eða ræktun kemur ekki til greina af ólíkum ástæðum. Á landupplýsingagrunninum hefur verið sett upp tilgátuvefsjá þar sem hagaðilar geta séð niðurstöður flokkunarinnar og gert athugasemdir við einstök atriði.
Tilgátuvefsjáin verður opin til 30. júní og henni er ætlað að afla upplýsinga sem gagnast til að þróa grunnflokkun landbúnaðarlands áfram og sníða af helstu agnúa. Í framhaldinu tekur Land og skógur við landupplýsingagrunninum og verða upplýsingar aðgengilegar framvegis með lifandi vefsjám sem verða uppfærðar samhliða þróun þessarar vinnu og gagnanna sem aflað verður. Hvert sveitarfélag ber ábyrgð á að vinna gögnin áfram og útfæra flokkunina nánar í sinni skipulagsvinnu. Með þessu fá sveitarfélögin betri grundvöll fyrir stefnumótun um landbúnaðarland í aðalskipulagi.
Á kynningarfundi sem Samband íslenskra sveitarfélaga hélt 11. júní fyrir hönd Lands og skógar var kortlagning ræktunarlands kynnt fulltrúum sveitarfélaga. Fundurinn fór fram á Teams og upptaka af honum er nú aðgengileg ásamt tengli á vefsjána.
Frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga
