Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Þrjátíu ára landgræðslustarf

17. janúar 2025

Á nýliðnu ári voru þrjátíu ár liðin frá því að Landgræðslufélag Biskupstungna var stofnað. Snemma í sögu félagsins hófust tilraunir með að nýta heyrúllur til að stöðva rof úr rofabörðum og búa til set fyrir nýjan gróður að koma sér fyrir. Gerðar hafa verið stuttar kvikmyndir um slík verkefni sem fróðlegt er að sjá.

Á leið á afrétt með heyrúllur_skjáskot úr myndbandi Áskels Þórissonar

Aðalfundur Landgræðslufélags Biskupstungna var haldinn í Reykholti í Bláskógabyggð fimmtudagskvöldið 12. desember. Félagið var stofnað árið 1994 og er eitt elsta landgræðslufélag landsins. Starfsemin er enn í miklum blóma og aðalfundinn sóttu hartnær tuttugu manns. Nokkrir nýir félagar gengu í félagið á fundinum.

Formaður félagsins, Ingvi Þorfinnsson bóndi á Spóastöðum, sagði á fundinum frá starfi félagsins á árinu, en það fólst uppgræðslu á Biskupstungnaafrétti með dreifingu á 48 tonnum af tilbúnum áburði á um 270 hekturum ásamt dreifingu á 180 heyrúllum. Að auki var dreift úr 110 tonnum af kjötmjöli á um 55 hektara í samvinnu við félagið.

Töluverðar umræður voru á aðalfundinum um hin ýmsu uppgræðslumál og bar þar margt á góma. Tvö erindi voru flutt. Annars vegar sagði Ágúst Sigurðsson, forstjóri Lands og skógar, frá verkefnum stofnunarinnar og hvaða stóru mál væru fram undan hjá henni. Hins vegar sýndi Garðar Þorfinnsson, héraðsfulltrúi hjá Landi og skógi, kort af aðgerðum sumarsins hjá félaginu. Einnig greindi hann frá aðgerðum á Tunguheiði á undanförnum árum. Það er svæði vestan Hvítár nokkru norðan við Gullfoss og í áttina til Bláfells. Það hefur verið friðað frá árinu 1997 og unnið að uppgræðslu þar allar götur síðan. Samningar um Tunguheiðina eru að renna út og þar með taka eigendur við henni á nýjan leik, Bláskógabyggð og Bræðratungukirkja.

Ágúst Sigurðsson flytur ávarp á aðalfundi Landgræðslufélags Biskupstungna 2024. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson

Í stjórn Landgræðslufélags Biskusptungna voru kosin þau Ingvi Þorfinnsson á Spóastöðum sem er formaður, Kristín Sigríður Magnúsdóttir í Austurhlíð ritari og María Þórunn Jónsdóttir í Gýgjarhólskoti gjaldkeri. Aðalstarfsvæði félagsins er Biskupstungnaafréttur. Þar hefur verið unnið á stórum svæðum sem ná frá Gullfossi og norður að Gíslaskála sem er vestan Kjalvegar nokkrum kílómetrum norðan við afleggjarann inn í Kerlingarfjöll. Ekki er þó um samfelld svæði að ræða.

Land og skógur óskar Landgræðslufélagi Biskupstungna til hamingju með þrjátíu ára afmælið og heilla í áframhaldandi verkefnum. Í tilefni þessara tímamóta er fróðlegt og áhugavert að viðra tvö myndbönd sem félagið hefur látið gera, annars vegar um verkefni norðan Sandvatns árið 2001 þegar það tók til kostanna sérstakan heyrúllutætara sem hefur reynst vel síðan við að koma afgangsheyi í rofabörð og önnur rofsvæði til að hefta fok og búa til set fyrir nýjan gróður. Hins vegar er myndband frá árinu 2008 þegar félagar tóku sig saman í ágúst og fluttu um 200 heyrúllur á afréttinn sem dreift var í marga kílómetra af rofabörðum. Að auki má benda á þriðja myndbandið sem Áskell Þórisson gerði fyrir Landgræðsluna 2016 um verkefni félagsins.