Þjóðargjöfin 50 ára
25. nóvember 2024
Málþing verður haldið í Norræna húsinu í Reykjavík 5. desember í tilefni af því að á þessu ári eru fimmtíu ár liðin frá því að Alþingi samþykkti sérstaka fjárveitingu til tímamótaverkefnis sem fékk heitið Þjóðargjöfin og ætlað var að bæta fyrir þá gróður- og jarðvegseyðingu sem orðið hafði frá landnámi.
Með verkefninu átti að „greiða skuldina við landið“. Alþingi samþykkti fjárveitinguna í tilefni af 1100 ára búsetu í landinu. Í nafni Þjóðargjafarinnar var unnin landgræðsluáætlun til fimm ára. Fjármunir úr Þjóðargjöfinni runnu til Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landverndar og Búnaðarfélags Íslands.
Á grundvelli áætlunarinnar var ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að friða land fyrir ágangi búfjár, endurheimta gróður dreifa áburði og fræi, vinna að rannsóknum á jarðvegi og gróðri, styrkja ræktun á efniviði til landgræðslu og skógræktar og efla félagsstarf og samstarf við landbúnaðinn.
Nú eru liðin 50 ár frá því að ákvörðun var tekin um Þjóðargjöfina og því ekki úr vegi að líta um öxl og minnast þessa merka verkefnis og fjalla um árangur þess í samhengi nútímans þegar áskoranir í umhverfismálum eru enn eitt stærsta viðfangsefni okkar allra. Í tilefni af því verður haldið málþing í Norræna húsinu fimmtudaginn 5. desember. Dagskráin hefst klukkan níu og lýkur á hádegi.