Þátttaka starfsfólks Lands og skógar í Líffræðiráðstefnunni 2025
17. október 2025
Aðalráðstefna Líffræðifélags Íslands var haldin á svæði Háskóla Íslands 9.-11. október. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og er vegleg uppskeruhátíð nýrra vísinda í hvert sinn. Starfsfólk Lands og skógar var áberandi og tók virkan þátt í viðburðinum.

Svipmyndir af fulltrúum Lands og skógar á Líffræðiráðstefnunni 2025. Ljósmyndir: Fífa Jónsdóttir
Tvö erindi voru flutt á vegum Lands og skógar. Bæði erindin fjölluðu um þau votlendisvöktunverkefni sem stofnunin heldur utan um, en þau eru flest tiltölulega ný af nálinni og í miklum vexti. Auk þess kom starfsfólk Lands og skógar að gerð nokkurra veggspjalda sem voru til sýnis á ráðstefnunni og lagði þannig mikilvægan skerf til fræðasamfélagsins.
Sunna Áskelsdóttir, verkefnastjóri votlendisverkefna, flutti fyrra erindið. Þar lagði hún mesta áherslu á eitt þeirra sem heitir Mýrgas. Í verkefninu eru gerðar reglulegar mælingar á búskap gróðurhúsalofttegunda mýra í mismunandi ástandi og af mismunandi gerð. Samhliða fara fram mælingar á ýmsum tengdum vistkerfisbreytum eins og veðurfars-, gróðurfars- og jarðvegsfræðilegum þáttum. Sem dæmi er grunnvatnshæð þáttur sem hefur mikil áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda úr mýrlendi og eins eru tengsl gróðurfars og annarra mæliþátta skýr. Mýrgasverkefnið hefur staðið yfir frá árinu 2023 á SV-hluta landsins en mælingar hófust á Austurlandi í vor í samvinnu við Náttúrustofu Austurlands. Mikið hefur safnast af gögnum sem henta vel fyrir nemendur að vinna úr í námsverkefnum sínum.
Ágústa Helgadóttir, verkefnastjóri nýs tilraunaverkefnis, flutti seinna erindið. Tilraunaverkefnið fellur undir svokallaðar náttúrumiðaðar lausnir í landbúnaði, en markmið þess er að fá landeigendur til þess að taka þátt í að meta og vakta árangur endurheimtar votlendis á landi sínu, með því að greiða þeim fyrir innsend gögn. Settir eru upp fastir vöktunarpunktar sem eru síðan heimsóttir reglulega af þátttökuaðilum áður en endurheimtarframkvæmdir hefjast, meðan á þeim stendur og þegar þeim er lokið. Með þessu móti þurfa sérfræðingar ekki að heimsækja svæðið jafnoft og geta jafnvel gripið fyrr inn í ef eitthvað fer úrskeiðis. Ágústa sagði frá vel heppnuðu dæmi áhugasamra landeigenda á Borgarfirði eystra og sýndi á myndrænan hátt hvernig framræsing þar hafði haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni mýranna sem til stóð að endurheimta.
Veggspjöld:
Peatland LIFEline: Restoring Iceland’s Lowland Peatlands for Biodiversity, Climate, and Community – Sunna Áskelsdóttir.
Exploring Belowground Biodiversity and Taxonomic Composition in an Icelandic Restoration Site – Jóhann Þórsson.
Þekking og rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Niðurstöður úr málsstofu Biodice um mikilvægi þekkingar og rannsókna við innleiðingu á stefnu Íslands um líffræðilega fjölbreytni – Álfur Birkir Bjarnason og Fífa Jónsdóttir.
Erindi:
Vöktun mosaþembugróðurs við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun – Járngerður Grétarsdóttir (1), Ágústa Helgadóttir, og Rannveig Thoroddsen
Mörg fleiri áhugaverð erindi voru flutt á Líffræðiráðstefnunni að venju og gefandi samræður fylgdu í kjölfarið enda er ráðstefnan frábær vettvangur til að fá innsýn í þau vísindi sem systurstofnanir Lands og skógar, háskólar og vísindasamfélagið allt er með á prjónunum. Við þökkum fyrir okkur og hlökkum til næstu ráðstefnu.
