Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Svíakonungur ávarpaði ráðstefnu IUFRO í Stokkhólmi

25. júní 2024

Um 4.200 þátttakendur hvaðanæva úr heiminum taka þátt í heimsráðstefnu IUFRO, samtaka skógrannsóknastofnana, sem hófst í gær í Stokkhólmi. Karl Gústaf sjötti Svíakonungur opnaði ráðstefnuna og veitti viðtal um mikilvægi skóga og skógvísinda, ekki síst í samhengi loftslagsmálanna.

Svíakonungur ávarpar ráðstefnugesti á IUFRO2024 í Stokkhólmi

Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er skógar og samfélag til 2050, Forests and Society Towards 2050. Hátt í 4.200 þátttakendur eru skráðir til leiks en einnig er fólk um allan heim skráð til þátttöku gegnum streymi. Fimm fulltrúar frá Landi og skógi sækja ráðstefnuna og leggja til veggspjöld og einnig eru íslenskir fulltrúar frá Háskóla Íslands, Norrænu ráðherranefndinni og sænska landbúnaðarháskólanum SLU.

Á ráðstefnunni er sérstaklega litið til þróunar skógarmála í heiminum og hvernig aukin eftirspurn eftir þjónustu og afurðum skóga ásamt nýjungum og frumkvöðlastarfi á eftir að lita þróun skóga og skógarmála á komandi áratugum, ekki síst með tilliti til markmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til 2030 og stefnumiða IUFRO. Fyrirlestrar og veggspjöld skipta hundruðum en einnig er mikill fjöldi málstofa á dagskránni, skoðunarferðir, inngangsfyrirlestrar, pallborðsumræður og fleira. Lögð er áhersla á umræður um framtíð skoga og skógrannsókna og sérstaklega leitast við að virkja ungt vísindafólk og námsfólk sem gegna mun aðalhlutverki í mótun þessarar framtíðar.

Á setningarathöfn ráðstefnunnar í gærmorgun ávarpaði Karl Gústaf sjötti Svíakonungur ráðstefnuna og veitti einnig viðtal sem hvort tveggja telst sjaldgæfur viðburður. Konungur heimsótti sérstaklega bás norræna skógrannsóknasamstarfsins SNS þar sem hann fræddist um starfið. Hann benti meðal annars á hversu mikilvægar rannsóknir væru, til dæmis til að umræða gæti byggst á staðreyndum. Einnig nefndi hann samhengi vísindanna við loftslagsmálin og fleira

IUFRO-ráðstefnan er nú haldin í 29. sinn. Síðast var hún haldin í Stokkhólmi árið 1929 og það var fyrsta ráðstefnan sem haldin var að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni. IUFRO-samstarfið nær allt aftur til ársins 1892 þegar þrjár skógvísindastofnanir tóku sig saman, ein þýsk, önnur svissnesk og sú þriðja austurrísk. Nú eru samstarfsstofnanirnar meira en 600 talsins og innan þeirra starfa um 15.000 vísindamenn í 126 löndum.

Ráðstefnuvefur IUFRO2024