Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Söngvakeppni á Skógardeginum mikla sem fagnar 20 ára afmæli í ár

18. júní 2024

Tuttugu ár eru nú frá því að Skógardagurinn mikli var haldinn í fyrsta sinn. Dagskráin hefst föstudaginn 21. júní með undanúrslitum í söngvakeppni sem efnt var til í tilefni afmælisins og svo verður keppt til úrslita á laugardaginn. Að auki verður fjölbreytt dagskrá, meðal annars hin árlega Íslandsmeistarakeppni skógarhöggsmanna, veisla í skóginum, skemmtidagskrá á sviði, leikir og fleira.

Skógardagurinn mikli 2024

Skógardagurinn mikli er árlegur fjölskylduviðburður sem haldinn er í þjóðskóginum Hallormsstaðaskógi um Jónsmessu. Snar þáttur í hátíðinni er Íslandsmeistaramótið í skógarhöggi sem laðar að sér þátttakendur víðs vegar að af landinu. Fyrir utan fjölbreytta dagskrá á svið og ýmiss konar leiki og skemmtun verður hin rómaða grillveisla á sínum stað þar sem gestir gæða sér heilgrilluðu nauti, safaríku lambakjöti og bragðmiklum pylsum. Að sjálfsögðu verður líka hægt að hressa sig á ekta skógarmannakaffi, ketilkaffi lagað yfir opnum eldi.

Í ár fer Skógardagurinn mikli fram 22. júní en upphitun kvöldið áður. Í tilefni af 20 ára afmæli Skógadagsins mikla í ár hefur verið efnt til söngvakeppni sem lýkur á aðalhátíðinni þar sem sigurlagið verður kynnt og sömuleiðis úrslit í Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi. Kosning fer fram á kosningasíðu sem kynnt verður með QR-kóða á hátíðarsvæðinu.

Upphitun fyrir Skógardaginn

Föstudaginn 21. júní

  • 18:00 Dagskrá hefst.

  • 18:30 Lagakeppni, lögin flutt á sviðinu.

  • 19:00 Esther Jökulsdóttir, söngur.

  • 19:30 Undanúrslit í lagakeppni – Hvaða þrjú lög komast áfram?

Skógardagurinn mikli

Laugardaginn 22. júní

  • 12:00 Skógarhöggskeppni, fyrri hluti hefst í skóginum.

  • Náttúruskólinn með ýmsar þrautir og leiki fyrir börn.

  • 13:00 Formleg dagskrá hefst í Mörkinni.

    • Skemmtidagskrá á sviði.

    • Esther Jökulsdóttir, söngur.

    • Guðmundur Gíslason, söngur.

    • Lagakeppni úrslit.

    • Lokagreinar í skógarhöggi og Íslandsmeistarinn krýndur.

    • Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum bjóða upp á heilgrillað naut og með því.

    • Ketilkaffi, lummur, pylsur í hundraðavís og ormabrauð að hætti skógarmanna.

    • Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum býður upp á grillað lambakjöt.

    • Krökkum boðið á hestbak.

  • 16:00 Allir fara heim saddir og kátir.

Skógardagurinn mikli - veggspjald