Sölvahraun fyrr og nú
14. ágúst 2024
Land hefur breytt mjög um svip frá aldamótum á Hekluskógasvæðinu. Víða þar sem áður var auðn er nú gróðurlendi með vaxandi grósku. Dæmi um þetta er Sölvahraun á Landmannaleið austan Búrfells.
Alltaf er gaman að líta um farinn veg þegar unnið er að landbótum með endurheimt vistkerfa. Meðfylgjandi myndir eru teknar frá Sölvahrauni í átt að Búrfelli í Hekluskógum með um tveggja áratuga millibili. Árið 2003 var melgresi ríkjandi en mikill og laus vikur á milli melhóla. Efsta myndin var tekin 23. maí í vor en þar sést birki sem komið er í góðan vöxt. Myndin þar fyrir neðan er tekin frá svipuðu sjónarhorni árið 2003 og sýnir hvernig þarna var þá umhorfs.
Þessa rúmu tvo áratugi sem liðnir eru hefur áburði verið dreift á svæðinu, bæði tilbúnum áburði og kjötmjöli, og mikið hefur verið gróðursett af birki. Þekjan er nú orðin nokkuð heil og vikurinn stöðugur. Birkið lítur vel út en eins má finna ýmsar tegundir þarna núna sem ekki voru þar fyrir 20 árum. Innlenda niturbindandi tegundin baunagras hefur líka verið prófuð á þessum slóðum og kemur vel út.
Hér fyrir neðan eru fleiri samanburðarmyndir úr Sölvahrauni sem sýna muninn á svæðinu frá 2003 til 2024. Myndirnar tók Magnús H. Jóhannsson, sérfræðingur á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi.