Skorradalur vettvangur nýsköpunar og þróunar í nýju samstarfi
1. október 2025
Rektorar Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Bifröst hafa ásamt forstöðumanni Lands og skógar undirritað samstarfssamning um eflingu og þróun aðferða við umhirðu og endurnýjun skóga, nýtingu skógarafurða og nýsköpun á sviði sjálfbærrar nýtingar skógarauðlinda á Íslandi. Þjóðskógarnir í Skorradal verða meðal annars nýttir sem tilraunasvæði.

Úr Skorradal. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Samningurinn var undirritaður til fimm ára með ákvæði um mögulega framlengingu að þeim tíma loknum. Undir hann rituðu Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans, Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, og Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.
Auk eflingar og þróunar aðferða við umhirðu og endurnýjun skóga, nýtingu skógarafurða og nýsköpunar á sviði sjálfbærrar nýtingar skógarauðlinda á Íslandi er markmið þessa samstarfs að stuðla að aukinni markaðssetningu afurða úr skógum. Samstarfið skal meðal annars miða að því að:
Styrkja tengsl og skilgreina sameiginleg markmið samstarfsaðila.
Efla menntun á sviði skógræktar, nýtingar og nýsköpunar.
Þróa nýjar aðferðir við skógarhögg og nýtingu skógafurða.
Framkvæma markaðsrannsóknir tengdar nýtingu skóga.
Nýta Skorradal sem tilraunasvæði fyrir þróun aðferða við nýtingu, umhirðu og kennslu í skógræktartengdum verkefnum.
Nýta aðstöðu í starfsmannahúsinu í Hvammi, Skorradal fyrir rannsóknir, þróun og kennslu.
Samstarfsverkefni
Samstarfið nær til margra þátta sem snerta skógrækt, skógahögg nog skógarnytja en einnig til rannsókna og þróunar eins og tíundað er í samningnum:
Rannsóknir á sviði skógræktar, skógarhöggs og nýtingar skógafurða, ásamt gerð nýtingaráætlana fyrir skóga.
Þróun nýrra aðferða til skóganýtingar og uppbygging þjónustu skógarverktaka.
Vöruþróun á afurðum úr íslenskum skógum.
Samstarf um þróun og kennslu námskeiða og námsbrauta sem tengjast skógrækt, nýtingu og markaðssetningu skógafurða.
Vinnsla og þróun viðskiptaáætlana fyrir nýjar vörur.
Notkun á aðstöðu í Hvammi í Skorradal fyrir rannsóknir, þróun og kennslu.
Tilhögun samstarfsins
Stofnaður verður verkefnahópur með tveimur fulltrúum frá aðilum samningsins sem hefur umsjón með mótun og framkvæmd samstarfsverkefna. Hópurinn heldur reglulega fundi til að fylgjast með framvindu verkefna og móta stefnu til framtíðar. Gert er ráð fyrir reglubundnum samskiptum og samráði þeirra til að tryggja samfellu og samræmi í verkefnum.
Möguleg fjármögnun
Fjármagn til verkefna verður sótt víða að en meðal annars er litið til eftirfarandi uppsprettna.
Styrkja úr sjóðum á borð við Tæknisjóð Rannís, evrópskra sjóða, sóknaráætlana sveitarfélaga og innlendra nýsköpunarsjóða.
Samstarfs við einkaaðila í úrvinnslu skógarafurða og tengdum atvinnugreinum.
Mælikvarðar á árangur
Árangur samstarfsins verður metinn með eftirfarandi mælikvörðum:
Fjöldi samstarfsverkefna sem koma til framkvæmda.
Þátttaka nemenda og kennara í samstarfsverkefnum, rannsóknarverkefnum og námskeiðum.
Lokaverkefni nema sem nýta sér samstarfið.
Heildarfjármögnun sem aflað er til verkefna.
Fjöldi birtinga í vísindaritum og erindum á ráðstefnum bæði innanlands og utan.
Þróun og innleiðing nýrra vara og þjónustu.

