Skógræktarstaðall til notkunar án endurgjalds
15. október 2025
Staðall um sjálfbæra skógrækt hefur nú verið gefinn út á vef Staðlaráðs. Þetta er fyrsti íslenski staðallinn þar sem settar eru samræmdar kröfur og leiðbeiningar fyrir sjálfbæra skógrækt hér á landi. Samkvæmt samningi við Staðlaráð þurfa notendur ekki að kaupa staðalinn heldur má hlaða honum niður án endurgjalds á vef ráðsins.

Ljósmynd: stadlar.is
Formlegt heiti staðalsins er ÍST 95:2025 – Sjálfbær skógrækt. Markmiðið með honum er að ýta undir ábyrgari nýtingu lands og náttúruauðlinda, efla fagmennsku í skógrækt og tryggja að þróun greinarinnar verði í samræmi við sjálfbærnismarkmið Íslands.
Sameiginleg framtíðarsýn
Í frétt um útkomu staðalsins á vef Staðlaráðs 14. október kemur fram að staðallinn sé afrakstur víðtæks samráðs og samstarfs í tækninefnd um sjálfbæra skógrækt (TN-SSK), þar sem saman komu meðal annarra fulltrúar frá viðeigandi stofnunum ríkisins, loftslagsverkefnum í skógrækt og einkafyrirtækjum.
Með þessu fjölbreytta samstarfi þykir tryggt að staðallinn endurspegli bæði stefnumótandi sjónarmið stjórnvalda og hagnýta reynslu þeirra sem starfa við skógrækt og landnýtingu á vettvangi. Tilkoma staðalsins markar ákveðin tímamót í skógrækt á Íslandi því með honum er kominn sameiginlegur rammi um gæði, ábyrgð og fagmennsku í fagi sem gegnir vaxandi hlutverki í samtímanum, bæði í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og við nýtingu lands. Staðallinn er verkfæri sem bæði er í takti við stefnu stjórnvalda og nýtist þeim vel sem standa að skógrækt og starfa að henni.
Helstu áherslur staðalsins
Skógræktarstaðallinn ÍST 95 er byggður á alþjóðlegum viðmiðum, meðal annars breska skógræktarstaðlinum UK Forestry Standard með nauðsynlegri aðlögun að íslenskum aðstæðum og lagaumhverfi. Þar koma fram kröfur og leiðbeiningar um margvíslega þætti í sjálfbærri skógrækt:
Áætlanagerð og leyfisferlar.
Vernd jarðvegs, vatns og líffræðilegrar fjölbreytni.
Val trjátegunda og endurnýjun skóga.
Samfélagsleg og efnahagsleg ábyrgð.
Viðmið um vöktun og stöðugt umbótastarf.
Staðallinn nær ekki sérstaklega til nýskógræktar, það er að segja ræktunar skógar á landi þar sem enginn skógur er fyrir eða landnotkun er breytt, þótt engu að síður nýtist margir þættir hans þar einnig. Til að fylla í þetta skarð er nú á teikniborðinu sérstakur staðall um nýskógrækt sem er að vænta í kjölfar hins. Markmiðið er að þar með verði komin heildstæð umgjörð um skógrækt á Íslandi, allt frá því að ræktun nýs skógar hefst þar til kemur að endurnýjun skógar.
Verkfæri til framtíðar
ÍST 95 er hagnýtt viðmið sem nýtist við stjórnsýslu, vottun, stefnumótun og framkvæmd verkefna á sviði skógræktar, eins og segir orðrétt í frétt Staðlaráðs. Staðallinn skapi grundvöll fyrir áreiðanlegt mat á gæðum og sjálfbærni skógræktarverkefna og geti þannig orðið burðarás í nýjum útfærslum á kolefnisbindingu, náttúruvernd og vistvænni landnýtingu.
Jafnframt segir að með útgáfu ÍST 95 sé stigið stórt skref í átt að samræmdum viðmiðum um sjálfbæra nýtingu landsins. Staðlaráð Íslands muni vinna áfram að kynningu og innleiðingu staðalsins í samstarfi við hagaðila, með það að markmiði að hann verði lifandi viðmið sem styður íslenska skógrækt til framtíðar.
Staðalinn og ítarefni sem fylgir má nálgast endurgjaldslaust á vef Staðlaráðs.
