Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Skógrækt á lögbýlum 2025

28. janúar 2026

Snemmgrisjun í bændaskógum jókst á nýliðnu ári og nú í janúar er enn verið að grisja enda tíðarfarið gott á landinu. Skógarbændur gróðursettu rúmlega tvær milljónir skógarplantna á árinu.

Lerkiskógur eftir snemmgrisjun. Ljósmynd: Johan Holst

Þetta kemur fram í yfirliti um verkefnið Skógrækt á lögbýlum sem Guðríður Baldvinsdóttir skógræktarráðgjafi hefur tekið saman. Verkefnið varð til við sameiningu landshlutabundnu skógræktarverkefnanna við Skógræktina árið 2016 og er nú hluti af verkefnum Lands og skógar. Það hefur fest sig í sessi sem mikilvægur þáttur í landnýtingu á Íslandi.

Árið 2025 voru gróðursettar skógarplöntur á 249 lögbýlum víðs vegar um landið. Til viðbótar voru ræktuð skjólbelti og skjóllundir á 87 lögbýlum. Þörfin fyrir umhirðu, aðallega snemmgrisjun, eykst ár frá ári, nú þegar skógar sem stofnað var til á fyrstu árum landshlutaverkefnanna eru komnir á „unglingsaldur“.

Snemmgrisjað var á 47 lögbýlum á síðastliðnu ári sem er nokkur fjölgun frá fyrri árum. Sökum góðrar tíðar heldur snemmgrisjun áfram nú í janúar og eins lengi fram á vorið og veður leyfir.

Súluritið hér að ofan sýnir heildarfjölda gróðursettra plantna hjá skógarbændum á árabilinu 2017 til 2025. Á nýliðnu ári nam heildarfjöldi gróðursettra plantna rúmlega 2,1 milljón. Þar af voru um 1,9 milljónir skógarplantna, auk um 210 þúsund plantna í skjólbeltum og skjóllundum. Meðaltal gróðursetningar skógarplantna á jörð voru rúmar 7.600 plöntur.

Gróðursetning dreifist misjafnlega milli landshluta. Mest var gróðursett á Vesturlandi og Norðurlandi, eða rúmlega helmingur plantna. Suðurland fylgdi þar á eftir. Súluritið hér að neðan sýnir skiptingu trjátegunda eftir landshlutum í gróðursetningum skógarbænda árið 2025.

Meðfylgjandi myndir tók Johan Holst skógræktarráðgjafi. Að neðan er mynd af vinnu í dreifingarstöð fyrir skógarplöntur.