Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Skógar Íslands loksins komnir á Evrópukortið

12. mars 2024

Arnór Snorrason, sérfræðingur hjá Landi og skógi, er meðal höfunda greinar sem nýkomin er út í hinu virta vísindariti Nature. Í greininni er fjallað um þá vinnu sem nú er í gangi við að koma á sameiginlegu vöktunarkerfi fyrir skóga Evrópu. Birt eru gögn um lífmassaforða evrópsku skóganna og vöxt lífmassans þar. Ísland er nú í fyrsta sinn með á korti sem sýnir slíkar upplýsingar og því má segja að íslensku skógarnir séu loksins „komnir á kortið“ að þessu leyti.

Hluti upphafssíðu greinarinnar í Nature

Lífmassi skóga er auðlind sem miklu skiptir í þeirri viðleitni að skipta yfir í grænt hagkerfi. Til að tryggja megi sjálfbæra stjórnun skógarauðlinda er því nauðsynlegt að fyrir liggi vandað mat á þessum lífmassa. Í grein sem kom út í tímaritinu Nature 6. mars er fjallað um lífmassaforða og vöxt lífmassa í skógum mestallrar Evrópu, þar á meðal á Íslandi. Arnór Snorrason, sérfræðingur hjá Landi og skógi, er meðal höfunda greinarinnar sem ber titilinn Harmonised statistics and maps of forest biomass and increment in Europe.

Arnór hefur um árabil stýrt verkefninu Íslenskri skógarúttekt þar sem skóglendi á Íslandi er metið og vaktað. Aðspurður hvað sé merkilegast fyrir Ísland í því sem fram kemur í greininni nefnir hann að nú sé Ísland í raun í fyrsta sinn komið á skógarkortið. Fram að þessu hafi Ísland ekki sést á þeim kortum sem gefin hafa verið út og sýna stöðu og ástand evrópskra skóga. Nú sé skógarþekja Íslands hins vegar komin á þennan virðulega stað og sést loksins á kortinu.

Mikilvægt fyrir loftslagsmarkmiðin

Greinin undirstrikar að sögn Arnórs það viðfangsefni sem er ofarlega í allra huga um þessar mundir, að Evrópa geti staðið við loftslagsmarkmið sín innan landnýtingar-geirans (e. LULUCF-sector) fram til 2030. Þessi lífmassi og lífmassavöxtur sem kynntur er í þessari grein er innlegg í þá nýju stefnu ESB, sem Ísland og Noregur eru með í, að minnka nettólosun um 310 milljónir tonna fram til 2030. Mikilvægur hluti af því að sjá hvort markmiðið muni nást sé að skoða lífmassann, magn hans og hversu mikið hann er að aukast. Nú sé í fyrsta skipti gerð tilraun til að gera þetta með algjörlega samræmdum hætti fyrir alla Evrópu og fá aðferðafræðina samþykkta á vísindalegan hátt.

Einmitt þetta er ekki síst mikilvægt, segir Arnór, að nú sé unnið að því að koma á samræmdu evrópsku skógarvöktunarkerfi sem hefur það aðalmarkmið að fylgjast með kolefnisforðanum, hvernig hann byggist upp, hvar skógurinn er en líka að meta ýmsa aðra þætti á borð við til dæmis líffjölbreytni.

Hvað er tækt til nytja?

Önnur nýlunda sem Arnór bendir á er að þarna sé í fyrsta sinn gerð grein fyrir því hversu mikill hluti af lífmassa skóganna er aðgengilegur til nytja. Talsvert af skóglendi Evrópu er friðað og þar má ekki fella tré til timburnytja. Stór svæði eru líka illa aðgengileg vegna bratta, fjarlægðar frá vegum og fleiri ástæðna. Þetta er meðal þess sem skráð er í skógarúttektum, segir Arnór, meðal annars sé það gert í Íslenskri skógarúttekt. Þar með fáist betri upplýsingar um hversu mikill viður er tiltækur til nytja. Íslendingar hafa tekið þátt í vinnu við að samræma þær aðferðir sem notaðar eru til að meta hversu aðgengilegur skógur er til nytja.

Minnkuð nettólosun

Sem fyrr segir er sá lífmassi og lífmassavöxtur sem kynntur er í umræddri grein í Nature innlegg í þá nýju stefnu Evrópusambandsins sem Ísland og Noregur eiga aðild að og felst í því að minnka nettólosun um 310 milljónir tonna fram til ársins til 2030. Betri þekking á þessum lífmassa skiptir sköpum við að gera sér grein fyrir því hver staðan er og hvernig hægt sé að bregðast við. Nú er talað um að við þessu kunni að þurfa að bregðast með því að draga úr skógarhöggi svo markmiðin náist en einnig með því að auka nýskógrækt. Ef dregið verður úr skógarhöggi kann það aftur á móti að hafa áhrif á þá viðleitni að nota sjálfbært timbur í stað stáls og steinsteypu eða timbur sem eldsneyti í stað olíu og kola. Markmið og leiðir geta því stundum rekist á.

Aðspurður um mikilvægi þess að greinin skuli hafa fengist birt í hinu virta tímariti Nature segir Arnór að alltaf sé heiður að fá birtingu í svo viðurkenndu riti. Kröfurnar séu miklar og til dæmis séu öll gögnin sem liggja að baki niðurstöðum aðgengileg með hlekkjum á gagnabanka sem fylgja greininni. Nokkur ár eru nú liðin frá því að aðalhöfundur greinarinnar, Valerio Avitabile, hafði samband við forsvarsfólk landskógarúttekta í löndunum sem um ræðir, þá í því skyni einu að afla upplýsinga í fyrirlestur. Sá fyrirlestur endaði á því að verða grein í einu virtasta vísindariti heims, Nature.

Evrópusambandið greiddi fyrir opinn aðgang að greininni og því er hún öllum opin til lestrar, ekki einungis áskrifendum Nature.

Land og skógur óskar Arnóri til hamingju með hlut sinn í greininni í Nature.