Skógar heimsins eyðast helmingi hægar en áður
24. nóvember 2025
Á árabilinu 1990-2000 minnkaði heildarþekja skóga á jörðinni um 10,7 milljónir hektara að meðaltali á hverju ári. Síðustu tíu árin nam þessi minnkun 4,14 milljónum hektara að meðaltali á ári. Ástæðan fyrir því að hægar gengur á skóga heimsins nú er annars vegar að dregið hefur úr eyðingu skóga í sumum löndum og í sumum öðrum hafa þeir breiðst út.

Ljósmynd: FAO/Vasily Maksimov
Skóglendi á jörðinni þekur meira en fjóra milljarða hektara og næstum helmingur þess er í hitabeltinu. Þetta nemur nálægt þriðjungi (32%) af öllu landi jarðarinnar og þýðir að fyrir hvert mannsbarn á jörðinni er til hálfur hektari af skógi. Hlutfall skóga er hæst í hitabeltinu, um 45 prósent, en næst koma skógar barrskógabeltisins og því næst skógar tempraða og heittempraða beltisins.
Þetta kemur fram í skýrslunni FRA 2025 sem kynnt var opinberlega 21. október. Þar er að finna heildarúttekt á skógarauðlindum heimsins sem unnin er á vegum FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Slíkar úttektir koma út á fimm ára fresti.
Ef litið er til heimshlutanna er mesta skógarþekjan í Evrópu. Hún svarar til fjórðungs allra skóga heimsins. Hæsta hlutfall skóglendis er aftur á móti í Suður-Ameríku. Þar eru 49% alls lands skógur. Meira en helmingur allra skóga heimsins (54%) tilheyrir aðeins fimm ríkjum, Rússlandi, Brasilíu, Kanada, Bandaríkjunum og Kína. Á Íslandi er þekja skóglendis um tvö prósent og þar af er birkiskóglendi um eitt og hálft prósent.
Í fréttinni á vef FAO er vakin athygli á nýjungum í skýrslunni að þessu sinni. Þetta eru aukin og endurbætt stafræn tól sem veita betri aðgang að gögnunum sem búa að baki.
Gagnvirkur gagnagrunnur á vefnum sem inniheldur öll gögn og lýsigögn frá 236 löndum og svæðum.
Forritunarviðmót (application programming interface) sem gerir kleift að sjálfvirknivæða aðgang að gögnum og samþættingu þeirra.
Landskýrslur á PDF-formi fáanlegar á hinum opinberu samskiptatungumálum Sameinuðu þjóðanna.
Þau gögn og þær upplýsingar sem safnað hefur verið saman í skýrslunni nýtast við að fylgja eftir alþjóðlegum skuldbindingum sem ríki heims hafa undirgengist svo sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til 2030, Parísarsamkomulagið um loftslagsmál, the Kunming-Montreal stefnuna um líffræðlega fjölbreytni og stefnumótandi áætlun Sameinuðu þjóðanna um skóga 2017-2030.
Á myndinni hér að neðan má sjá skógarþekju í 67 löndum sem eiga aðild að UNECE, efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu, samkvæmt gögnum sem birtast í skýrslunni FRA 2025. Þar kemur fram að skógarþekja á Íslandi nemi 0,6 prósentum af flatarmáli landsins. Þetta er samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu á skógi, þar sem miðað er við tegundir sem ná að minnsta kosti fimm metra hæð fullvaxnar. Hérlendis erum við vön að miða við tveggja metra hæð og samkvæmt því nemur skógarþekja á Íslandi um tveimur prósentum landsins.

