Skoðunarferðir í tengslum við heimsráðstefnu IUFRO
2. febrúar 2024
Um fimm hundruð manns hafa nú forskráð sig í skoðunarferðir sem eru í boði í tengslum við heimsráðstefnu IUFRO, alheimssamtök skógrannsóknastofnana, sem fram fer í Stokkhólmi í Svíþjóð í júní. Enn er þó laust í tvær Íslandsferðir sem eru í boði og sex ferðir um Skandinavíu og Eystrasaltslöndin.
Ferðirnar um Ísland eru annars vegar svokölluð jöklaferð þar sem ekið verður um Suðurland og austur á firði og endað á Egilsstöðum. Fararstjóri í þeirri ferð verður Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hins vegar er ferð sem kennd er við hálendi Íslands en þá verður byrjað á Suðurlandi og ekið norður yfir hálendið og austur um til Egilsstaða þar sem fólk úr hópunum tveimur sameinast. Fararstjóri í síðarnefndu ferðinni verður Aðalsteinn Sigurgeirsson skógerfðafræðingur. Ferðalangar skoða náttúru landsins, heimsækja skóga og kynnast líka skógræktarstarfi og skógrannsóknum og -þróun í landinu.
Svipaða sögu er að segja um ferðirnar til Skandinavíu og Eystrasaltsríkjanna. Annars vegar er þeim ætlað að kynna löndin, menningu þeirra og sögu og hins vegar áhugaverða þætti sem tengjast skógum, skógrannsóknum og þróun í greininni. Undir miðnætursólinni kynnast
ferðalangar náttúru og menningu um Jónsmessuna þar sem ferðast verður um norðanverða Svíþjóð og farið yfir til Finnlands. Ferð í norsku firðina hefst í Mið-Svíþjóð og þaðan er haldið um firði sunnanverðs Noregs. Frá strönd til strandar er skipulögð ferð frá Sundsvall í Svíþjóð yfir til Þrándheims í Noregi, þar sem farið er um gjöful barrskógasvæði en líka í spennandi fjallgöngur. Í ferð um Suður-Svíþjóð er yfirskriftin sjúkdómar, fjölbreytni og afurðir. Úr skógi á diskinn er þema ferðar um Suður-Svíþjóð og austanverða Danmörku þar sem litið verður á skógarskemmdir, aðlögun að loftslagsbreytingum og afurðir. Loks er svo ferð um Eystrasaltslöndin þrjú, græna gimsteina Evrópu eins og það er kallað í kynningu.
Nánar má kynna sér ferðirnar á kynningarsíðu og ítarlegar á vef heimsráðstefnunnar.
Land og skógur á aðild að IUFRO-samtökunum og tekur þátt í skipulagningu ráðstefnunnar, einkum þess sem snertir skoðunarferðirnar til Íslands.