Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Sjö námsefnispakkar afrakstur ForestWell-verkefnisins

11. nóvember 2025

Með námsefni sem Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) hefur tekið þátt í að búa til má nýta áhrif skóga og kjarrlendis á velferð fólks til atvinnusköpunar og heilsueflingar en um leið stuðla að velferð skóga og gróinna svæða. Land og skógur var meðal aðila sem leitað var til við þessa vinnu um fyrirmyndir, aðstöðu, þekkingu og reynslu.

Ljósmynd: Hulda Laxdal Hauksdóttir

Í ForestWell-verkefninu var unnið að gerð námsefnis í samstarfi í samstarfi formlegra og óformlegra menntastofnana, fyrirtækja á sviði markaðsmála og fyrirtækja sem vinna að stafrænum lausnum. Þátttakendur voru frá Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Íslandi og Slóveníu sem stýrði verkefninu. Markmið ForestWell-verkefnisins var að vinna rafræna náms- og þjálfunarpakka fyrir ferðaþjónustu-, upplifunar- og heilsueflingarfyrirtæki auk menntastofnana. Megininntak námsefnisins sem unnið hefur verið að er að bjóða fram leiðir til að nýta velferðaráhrif skógar- og kjarrlendis til atvinnusköpunar og heilsueflingar annars vegar, og stuðla að velferð skóga og gróinna svæða hins vegar. Í verkefninu var einnig unnið að uppbyggingu tengslanets aðila sem tengjast skógrækt, almennri náttúruvernd, heilsueflingu og menntun. Námsefni ForestWell er sett fram á rafrænan hátt á heimasíðu verkefnisins og er það þar í opnu rafrænu námsumhverfi (MOOC - Massive Open Online Course) og á formi gagnaukins veruleika (AR Augmented Reality).

Að sögn Huldu Laxdal Hauksdóttur, kennara og verkefnisstjóra hefur FAS lengi litið svo á að tenging út í samfélagið og við atvinnulífið sé mikilvægur þáttur skólastarfsins. Skólinn hafi verið virkur þáttakandi í evrópskri námsefnisgerð sem styður við símenntun aðila á vinnumarkaði í álfunni. ForestWell sé eitt af þeim Erasmus+ mennta- og námsefnisgerðarverkefnum sem FAS hefur tekið þátt í. FAS var önnur tveggja menntastofnana sem tóku þátt í námsefnisgerðinni en hin var verkmenntaskólinn VSGT í Slóveníu. Auk þess að vinna námsefnið var hlutverk skólanna að koma með kennslufræðilega nálgun á afurðirnar og framsetningu þeirra.

Hulda segir að afrakstur verkefnisins sé rafrænn náms- og þjálfunarpakki fyrir ferðaþjónustu-, upplifunar- og heilsueflingarfyrirtæki auk menntastofnana. Megininntak námsefnisins sé að bjóða fram leiðir til að nýta velferðaráhrif skógar- og kjarrlendis til atvinnusköpunar og heilsueflingar annars vegar og stuðla að velferð skóga og gróinna svæða hins vegar. Námsefnið hafi verið hannað með það að leiðarljósi að það yrði aðgengilegt öllum til notkunar ókeypis.

Aflað var gagna í upphafi frá aðilum sem tengdust skógum og skógrækt í öllum löndum þátttökuaðila. Leitað var eftir samstarfi þeirra við verkefnið og upp úr því urðu til nokkur líkön eða fyrirmyndir (case studies). Hulda segir að hér á landi séu vandfundin ferðaþjónustufyrirtæki sem nýti skóga í starfsemi sinni en mörg slík voru hluti af tengslaneti erlendu samstarfsaðilanna. Hér hafi því helst verið leitað til aðila sem vinna að skógrækt, nýtingu lands á uppbyggilegan máta og menntastofnana sem einna helst vinna með náttúru og útinám. Þar hafi til dæmis Land og skógur komið inn í myndina auk þess sem útbúið var kort með aðilum sem gætu á einhvern hátt tengst markmiðum verkefnisins.

Frá vettvangsvinnu í Haukafellsskógi. Ljósmynd: Hulda Laxdal Hauksdóttir

Slóvenar fóru fyrir verkefninu en önnur þátttökulönd voru Danmörk, Finnland, Írland og Ísland. Vinnan fór að mestu fram með rafrænum samskiptum en einnig voru haldnir fundir í öllum þátttökulöndum verkefnisins nema Danmörku. Skógar í öllum löndunum nýttust við verkefnið og hér var nýttur skógur Skógræktarfélags Austur-Skaftafellssýslu í Haukafelli. Nemendur af svæðinu gróðursettu þar tré og nutu um leið skógarins í leik og slökun.

Að sögn Huldu eru námsefnispakkarnir sem af verkefninu spruttu sjö að tölu. Þeim fylgi öllum stutt könnun svo að notendur eða þátttakendur geti gert sér grein fyrir því hvað þeir hafa meðtekið af námsefninu. Nútímatækni er notuð við framsetningu námsefnisins í rafrænu MOOK-umhverfi. Gagnvirkni er nýtt við framsetninguna og leikur er þar mikilvægur þáttur. Í FAS segir Hulda að efnið geti nýst í áföngum sem heita Inngangur að vísindum og Umhverfis- og auðlindafræði. Hjá samstarfsþjóðunum hafi námsefnið þegar verið fléttað inn í námskrár og endurmenntunaráætlanir en von þeirra sem að verkefninu komu, bæði hér og erlendis, sé að námið nýtist öllum þeim sem vilja nýta skóga á jákvæðan máta, svo sem ferðaþjónustu-, upplifunar- og heilsueflingarfyrirtækjum auk menntastofnana.