Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Sigfús Íslandsmeistari í skógarhöggi og metfjöldi á Skógardeginum mikla

30. júní 2025

Áætlað er að um 2.500 manns hafi komið á Skógardaginn mikla sem haldinn var laugardaginn 21. júní í Hallormsstaðaskógi. Það er mestur fjöldi gesta frá því að fyrsti skógardagurinn með þessu sniði var haldinn 2005. Hlutskarpastur í Íslandsmótinu í skógarhöggi þetta árið var Sigfús Jörgen Oddsson, skógræktarráðgjafi hjá Landi og skógi, sem hampaði titlinum í annað sinn.

Skógardagurinn mikli var nú haldinn í nítjánda sinn en tvisvar féll viðburðurinn niður vegna kórónuveirufaraldursins. Að venju var flutt tónlist af ýmsu tagi á sviði og sömuleiðis var dagurinn mikil matarveisla eins og venjan er; nautgripabændur grilluðu naut í heilu lagi og buðu gestum en saufjárbændur reiddu fram grillað lambakjöt og pylsur en einnig mátti smakka á svínakjöti og pylsum á vegum landsliðs kjötiðnaðarmanna. Að sjálfsögðu var á boðstólum heitt ketilkaffi að skógarmanna sið og eldbakaðar lummur.

Tónlistaratriði á sviði. Ljósmynd: Bergrún Arna Þorsteinsdóttir

Á hátíðinni kynnti fyrirtækið Tandrabretti ýmsar tegundir af viðarkyntum ofnum í þar til gerðum gámi. Meðal annars var sýndur pitsuofn sem kyntur er með viðarperlum og auðvitað pitsur í boði úr ofninum líka.

Náttúruskólinn var með leiki á Skógardeginum mikla. Ljósmynd: Bergrún Arna Þorsteinsdóttir

Náttúruskólinn á Egilsströðum sá um að skipuleggja leiki og ýmsar þrautir fyrir börnin sem gátu líka fengið að fara lítinn hring á hestum. Þá fór hið árlega Íslandsmeistaramót í skógarhöggi fram að venju á skógardeginum mikla. Sigurvegari var Sigfús Jörgen Oddsson, skógfræðingur og skógræktarráðgjafi hjá Landi og skógi. Sigfús hefur áður keppt á mótinu og varð síðast Íslandsmeistari árið 2017. Á efstu myndinni má sjá Sigfús lengst til vinstri meðal keppenda þegar verðlaun voru veitt.

Viður klofinn með kjullu. Ljósmynd: Bergrún Arna Þorsteinsdóttir

Bylgjulestin var á skógardeginum og tók viðtöl við ýmsa sem tengjast skóginum á svæðinu. Blíðskaparveður var þennan dag á Hallormsstað en fór að hellirigna um klukkan sex þegar öllu var lokið og gestir farnir til síns heima.

Frá keppni í skógarhöggi. Ljósmynd: Bergrún Arna Þorsteinsdóttir

Skógardagurinn er skipulagður af starfsfólki frá Landi og skógi á Hallormsstað ásamt félögum úr Félagi skógarbænda á Austurlandi, Félagi nautgripabænda á Héraði og fjörðum og Félagi sauðfjárbænda á Héraði og fjörðum.

Meðfylgjandi myndir tók Bergrún Arna Þorsteinsdóttir.

Pinnabrauð yfir eldiLjósmynd: Bergrún Arna Þorsteinsdóttir