Sendiherra þakkar nítján ára formannsstarf
4. september 2025
Cecilie Willoch, sendiherra Noregs, afhenti Arnóri Snorrasyni, sérfræðingi á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi, þakkargjöf þegar hann lét af formennsku Norsku þjóðargjafarinnar í gær eftir nítján ára starf. Í formannsstólinn settist Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri ræktunar og nytja, en auk norska sendiherrans situr einnig í stjórninni forstöðumaður Lands og skógar.

Sögu Þjóðargjafar Norðmanna til Íslendinga má rekja aftur til loka stríðsáranna þegar þáverandi sendiherra Noregs vildi sýna Íslendingum þakklæti fyrir stuðning og aðstoð meðan á stríðinu stóð. Formannsskiptin fóru fram á Mógilsá þegar Cecilie Willoch, sendiherra Noregs á Íslandi, kom þangað til stjórnarfundar miðvikudaginn þriðja september.
Gjöfin nam einni milljón norskra króna á sínum tíma. Þar af voru fjórir fimmtu hlutar nýttir til að reisa það húsnæði á Mógilsá sem varð upphafið að skipulögðum skógræktarrannsóknum á Íslandi. Fimmtungurinn sem eftir stóð var svo notaður til að styrkja íslenskt skógræktarfólk til að heimsækja kollega í Noregi, sem og að gefa Norðmönnum tækifæri til að koma til Íslands og kynnast skógræktarstarfinu hér. Má segja að þessar skiptiferðir milli Íslands og Noregs hafi verið farnar árlega frá sjöunda áratugnum og mörg og góð sambönd skapast á milli þjóðanna tveggja á sviði skógræktar.
Á myndunum sem hér fylgja má sjá sendiherrann afhenda Arnóri þakkargjöf fyrir setu hans í nefndinni þessi nítján ár og ganga með honum um skóginn á Mógilsá ásamt Marianne Kvan sendiráðsfulltrúa (chargé d'affaires) og Silje Beike Løken ráðgjafa. Aðalsteinn Sigurgeirsson skógerfðafræðingur veitti leiðsögn um skóginn og útlistaði meðal annars þau norsku tré sem hafa verið alin upp á Mógilsá og eru hluti af ávöxtunum af skógarsamstarfi þjóðanna tveggja. Með í för voru jafnframt Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, og Hrefna Jóhannesdóttir, nýr formaður Þjóðargjafarinnar, sem skipa nú stjórn hennar ásamt sendiherra Noregs.



