Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Samtal um þekkingu og aðgerðir lykill að sjálfbærri nýtingu beitilands

15. september 2025

Með góðri og víðtækri þátttöku ólíkra hagsmunaaðila og í upplýstu samstarfi má ná góðum árangri í átt að sjálfbærni í landnýtingu á beitarsvæðum. Mikilvægt er að áfram verði unnið að þverfaglegum rannsóknum og þekkingarmiðlun með vöktun og mati á bæði félagslegum og vistfræðilegum þáttum. Sömuleiðis þarf stjórnsýslan og stjórnunaraðferðir að þróast í takt svo árangur náist.

Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem fjallað er um í nýútkominni grein í vísindaritinu Environmental Science and Policy eftir þau Jónínu S. Þorláksdóttur, Annemarie van Paassen, Bryndísi Marteinsdóttur, sviðstjóra hjá Landi og skógi, Isabel C. Barrio og Ásu L. Aradóttur.

Enskur titill greinarinnar er Negotiating knowledge and action for sustainable rangeland management: Successes and failures of boundary work at the science-policy-society interface in Iceland. Í útdrætti hennar segir að hnignun beitilanda vegna ósjálfbærrar landnotkunar sé útbreitt vandamál í heiminum. Á Íslandi hafi ofbeit verið einn af megináhrifaþáttum í hnignun lands og eyðimerkurmyndunar. Stefnumótun og stjórntæki stjórnvalda til að samræma landbúnaðarhætti við markmið um sjálfbærni hafi ekki skilað þeim samfélagslega og vistfræðilega árangri sem stefnt var að.

Í rannsókninni er rýnt í hvernig ólíkir þættir á sviði fræða, stjórnsýslu og samfélags hafa áhrif á stefnu og ákvarðanir sem eru teknar. Skoðuð eru tengsl, samstarf og samskipti vísindafólks, embættisfólks og bænda, samvinna og átök þar á milli um skilgreininguna á sjálfbærni við nýtingu lands til beitar, hvernig framfylgja skuli sjálfbærnimarkmiðum í beittu landi og hvernig tengsl mismunandi aðila, þróun stjórnsýslunnar og miðlun þekkingar hefur sett mark sitt á leiðina til sjálfbærni.

Fjögur tímabil samstarfs eða átaka eru greind sérstaklega í rannsókninni.

  1. 1997–2003:

    Á þessum árum er sjálfbærni sett á dagskrá af hálfu vísindafólks sem í samstarfi við aðra aðila mótar ný viðmið og gæðakerfi fyrir sauðfjárrækt. Með þátttöku bænda og opinberum stuðningi tekst að skapa sameiginlegan skilning og samstöðu um trúverðuga leið að því að laga landnýtinguna að nýjum markmiðum.

  2. 2006–2009:

    Á þessu tímabili tekur ágreiningur um skilgreininguna á sjálfbærri landnýtingu að aukast. Vanta þykir upp á gagnsæi og hlutlægri vöktun sem tekur að grafa undan trausti bænda á vísindalegu mati. Bændur fara að efast um að mat Landgræðslunnar endurspegli raunverulega stöðu landnýtingar.

  3. 2012–2015:

    Þegar hér er komið taka átök að magnast. Bændasamtökin telja skilgreininguna á sjálfbærri nýtingu ekki raunhæfa og þrýsta á um breytingar á henni. Vísindafólk varar við því að með breyttum reglum verði grafið undan endurheimt vistkerfa. Vaxandi ágreiningur verður um gögn, túlkun og skilning á sjálfbærnihugtakinu.

  4. 2016–2021:

    Efnt er til vöktunarverkefnisins GróLindar þar sem gerð er tilraun til að byggja upp traust með því að standa í sameiningu að því að afla aukinnar og betri þekkingar. Verkefnið nýtur trausts og trúverðugleika meðal bænda en margir þeirra telja þó hlut sinn í verkefninu ekki nægilega stóran og að gögn séu misnotuð í stjórnsýslunni. Þetta leiðir til nýrra átaka um réttmæti og notagildi upplýsinganna.

Meðal ályktana greinarhöfunda af rannsókninni er að þátttaka ein og sér dugi ekki til að árangur náist í sjálfbærnimálum. Tryggja þurfi víðtæka þátttöku í öflun þekkingar þar sem strax í upphafi sé jafnvægi í áhrifum, gildum, hlutverkum og ábyrgð þátttakenda. Í þessu efni skipti gagnsæi í miðlun upplýsinga þvert á hópa miklu máli. Stöðugleiki þurfi að vera í stjórnsýslunni en um leið ákveðinn sveigjanleiki í stjórnunaraðferðum. Samhliða þurfi að þrýsta á ráðandi öfl um breytingar og stuðla að því að stjórnsýslan þróist með. Jafnframt skipti sköpum að styðja við vísindastarfið þannig að áfram verði unnið að þverfaglegum rannsóknum og þekkingarmiðlun. Sjá þurfi til þess að áfram fari fram vöktun og mat á bæði félagslegum og vistfræðilegum þáttum. Þannig megi bæta almenna stjórn þessara mála og um leið árangurinn á sviði sjálfbærni.

Greinin er aðgengileg á vefnum: Negotiating knowledge and action for sustainable rangeland management: Successes and failures of boundary work at the science-policy-society interface in Iceland