Samstarf í rannsóknum á sviði skógræktar og landgræðslu
2. janúar 2025
Skömmu fyrir jól var undirritaður samstarfssamningur Lands og skógar við Háskóla Íslands um rannsóknir og uppbyggingu þekkingar á sviði skógræktar og landgræðslu sem meðal annars skapar meistara- og doktorsnemum við HÍ tækifæri í verkefnavali.


Samninginn undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Ágúst Sigurðsson, forstjóri Lands og skógar. Hann er til fjögurra ára og með undirritun hans hefst jafnframt rannsókna- og þróunarverkefni Lands og skógar ásamt námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands um aukinn skilning á virði þeirrar vistkerfisþjónustu sem skógar landsins veita samfélaginu.
Sumt af þeirri þjónustu sem skógarnir veita er vel þekkt, svo sem framleiðsla á viðarafurðum. Minna fer fyrir þekkingu á mikilvægri þjónustu, svo sem á sviði vatnsverndar, líffræðilegrar fjölbreytni, kolefnisbindingar, virðis lands, byggðaþróunar, nytja, útivistar og afþreyingar. Gjarnan vantar þessa þætti í þeim skilningi sem lagður er í virði þeirrar vistkerfisþjónustu sem skógar veita. Samstarfsverkefninu er meðal annars ætlað að styðja við ákvarðanatöku um áherslur í ræktun nýrra skóga og stjórn nýtingar þeirra skóga sem finnast í landinu.
Land og skógur er stofnun sem varð til við sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í upphafi nýliðins árs. Stofnunin fer með málefni skógræktar og landgræðslu og er alhliða þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda. Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er lögð áhersla á samstarf við samfélagið og rannsóknir sem geti eflt opinbera stefnumótun. Jafnframt er það markmið skólans eiga samstarf við opinberar stofnanir og taka og styðja markviss skref í átt að sjálfbærum heimi í krafti rannsókna og kennslu.
Með þessu samstarfi sjá samningsaðilar því mörg tækifæri til framþróunar, eflingar menntunar og aukinna rannsókna sem muni stuðla að markmiðum beggja.
Á meðfylgjandi mynd sjást þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Ágúst Sigurðsson, forstjóri Lands og skógar, handsala samkomulagið. Myndina tók Björn Gíslason. Á neðri myndinni eru að auki prófessorarnir þrír sem einnig voru viðstaddir undirritunina, standandi frá vinstri: Daði Már Kristófersson, Lára Jóhannsdóttir, forstöðukennari námsleiðar í umhverfis- og auðlindafræði og Jón Geir Pétursson prófessor.