Saga Gunnarsholts - útgáfuhóf
6. júní 2024
Út er komin bókin Saga Gunnarsholts á Rangárvöllum sem Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, hefur ritað. Af því tilefni efnir bókaútgáfan Sæmundur ásamt höfundi til útgáfuhófs í Gunnarsholti í samvinnu við Land og skóg.
Eins og segir í káputexta bókarinnar er nú aðeins rúm öld liðin frá því að foksandur herjaði með skelfilegum afleiðingum á landinu, meðal annars á Rangárvöllum þar sem geisuðu sandstormar, torfþök rifnuðu af bæjarhúsum og Reyðarvatn fylltist af sandi. Orðrétt segir:
Við frumstæðar aðstæður hófu Íslendingar gagnsókn með því að girða og friða sandfokssvæði fyrir búfjárbeit, hlaða sandvarnargarða og sá melgresi. Í Gunnarsholti á Rangárvöllum tókst með tímanum – á landi sem áður var sandauðn – að koma á laggirnar langstærsta búi sem starfrækt hefur verið á Íslandi.
Bókarhöfundur, Sveinn Runólfsson, bjó í Gunnarsholti í hartnær sjö áratugi og var þar af landgræðslustjóri í 44 ár. Í bókinni rekur hann sögu jarðarinnar, ekki síst það starf sem varð til þess að hún breyttist úr auðn í gróskumikið gróðurlendi á liðinni öld.
Útgáfuhófið hefst klukkan 14 fimmtudaginn 13. júní í Sagnagarði í Gunnarsholti. Þangað er boðið aðstandendum bókarinnar ásamt áskrifendum sem skráðir eru í heillaskrá bókarinnar.