Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Reynsla Íslands nýtt í heimsbaráttunni gegn eyðimerkurmyndun

22. janúar 2025

Tvær reynslusögur frá Íslandi bættust nýverið í verkfærakassa UNCDD, samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Þar er miðlað reynslu Íslendinga úr Hekluskógaverkefninu og verkefni austan Þorlákshafnar þar sem foksandur hefur verið beislaður.

Árangursrík aðgerð til að hefta sandfok yfir byggðina í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Sveinn Runólfsson

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun, UNCDD, var gerður í París 1994. Tilgangur hans var að beina athygli heimsbyggðarinnar að þeim löndum, sérstaklega í Afríku, sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka eða eyðimerkurmyndunar og efna til aðgerða gegn þessari vá. Samningurinn á rætur að rekja til heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó de Janeiró árið 1992. Íslendingar staðfestu aðild sína að samningnum árið 1997.

Í samningnum er eyðimerkurmyndun skilgreind sem hnignun lands á þurrum eða úrkomulitlum svæðum af völdum ýmissa þátta, þar á meðal veðurfarsbreytinga og mannlegra athafna. Samkvæmt skilgreiningu samningsins á þessum svæðum falla heimskautasvæði og svæði sem næst þeim liggja þar fyrir utan, þar með talið Ísland. Í eyðimörkum Íslands er ekki skortur á úrkomu heldur er jarðvegur gegndræpur, úrkoma hripar fljótt niður og verður því ekki aðgengileg gróðri. Það breytir því ekki að Ísland hefur getað lagt drjúgan skerf til baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun í heiminum, ekki síst með því að miðla af þeirri miklu reynslu sem hefur fengist af baráttu við gróður- og jarðvegsrof hérlendis og starfinu að endurheimt vistkerfa á rofnum svæðum Íslands. Það er til dæmis gert með Landgræðsluskóla GRÓ þar sem Land og skógur leggur til mikilvægan mannafla og þekkingu.

Árið 2022 var þróaður sérstakur verkfærakassi um jarðvegsrof á vegum UNCDD í samvinnu við alþjóðlegu veðurfræðistofnunina WMO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna FAO og WOCAT sem er alþjóðlegt samstarfsnet um sjálfbæra landnýtingu. Í nýjustu uppfærslu þessa verkfærakassa bættust tvær reynslusögur frá Íslandi í kassann sem bæði eru í umsjón og forystu Lands og skógar. Frá þessu er sagt í frétt á vef rammasamnings SÞ um varnir gegn eyðimerkurmyndun 10. desember síðastliðinn.

Önnur reynslusagan er vel heppnað starf á Hafnarsandi við Þorlákshöfn. Sandfok úr austri hafði lengi angrað íbúa Þorlákshafnar og verið til ama bæði mannlífi og athafnalífi, allt þar til gripið var til stórtækra aðgerða um og upp úr 1980 til að hefta sandinn. Þar skipti sáning melgresis sköpum og hleðsla sérstakra garða þvert á ríkjandi vindátt sem hjálpaði melgresinu að ná rótfestu. Árangurinn er sá að moldrok úr austri er hverfandi vandamál í Þorlákshöfn frá því sem áður var.

Búrfellshólmar austan Búrfells. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Hin reynslusagan er Hekluskógaverkefnið, stærsta birkiútbreiðsluverkefni sem er í gangi á Íslandi. Þar er meginmarkmiðið að endurheimta birkiskóglendi á svæðunum í kringum Heklu sem verst hafa orðið úti í öskufalli í aldanna rás. Á þessum svæðum, svo sem í Þjórsárdal, stóðu birkiskógar langt fram eftir öldum og vörðu landið fyrir afleiðingum öskugosa. Þegar skógurinn hvarf var landið berskjaldað fyrir roföflunum. Með því að klæða það birkiskógi og -kjarri á ný nást margvísleg markmið, ekki síst þau að draga úr neikvæðum áhrifum öskufalls í kjölfar Heklugosa. Í verkefninu er lögð áhersla á að nýta mikla fræframleiðslu birkisins og mátt þess til að sá sér út af eigin rammleik til að árangurinn verði sem mestur og hraðastur á þessu víðfeðma svæði. Einnig er áhersla lögð á að nýta lífræn úrgangsefni sem til falla, ekki síst kjötmjöl sem gefið hefur mjög góða raun við að búa til jarðvegs- og gróðurskán sem birkið getur sáð sér í.

Í myndbandi WOCAT um þessi íslensku verkefni er farið yfir eðli þeirra og árangur auk þess sem gefin er innsýn í hvernig roföflin hafa farið með gróður- og jarðvegsauðlind Íslands frá landnámi.