Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Nýtt myndband Mossy Earth um votlendisverkefni á Mýrum vestur

1. júlí 2025

Samtökin Mossy Earth hafa gefið út áhugavert og fræðandi myndband um endurheimt votlendis og lífríkis á Mýrum í Borgarbyggð. Þar er markmiðið að koma vatnsfarvegum og vatnasviði í fyrra horf ásamt búsvæðum fiska og annarra lífvera.

Undanfarin ár hafa starfsmenn Hafrannsóknunarstofnunar og Lands og skógar á Vesturlandi unnið að verkefni sem byggist á heildstæðri endurheimt vistkerfa. Þar eru metin áhrif endurheimtar votlendis á Mýrum á Vesturlandi á búsvæði fiska og fugla, gróðurfar, jarðvegseiginleika og landnotkun.

Rannsóknir hófust árið 2021 á vatnasvæði Kálfalækjar. Þar kom í ljós að framræsla votlendis hafði eyðilagt farleiðir fiska upp læki á svæðinu. Auk þess hafði framræslan haft slæm áhrif á hrygningar- og uppeldissvæði fiskanna. Eftir margra ára undirbúningsvinnu og samvinnu með landeigendum verður farið í framkvæmdir í haust á fyrsta áfanga endurheimtar Kálfalækjarvatnasviðs og Blöndulækjaravatnasviðs þar sem stefnt er að því að loka skurðum. Markmiðið er að snúa árfarvegum til fyrra horfs og endurheimta hrygningar- og uppeldissvæði fiska, búsvæði fugla og mýrarnar sem þarna voru áður.

Framkvæmdirnar njóta stuðnings samtakanna Mossy Earth sem undanfarin ár hafa unnið að ýmsum verkefnum á Íslandi, svo sem gróðursetningu trjáplantna og metnaðarfullum votlendisverkefnum. Samtökin byggja starf sitt á félagsaðild og framlögum almennings vítt og breitt um heiminn og drifkraftur þeirra er ástríða fyrir útivist, vernd náttúrunnar og verkefnum sem koma raskaðri náttúru aftur í villt og sjálfbært ástand. Þau taka að sér vinnu við verkefni sem stuðla að eflingu villtra dýrastofna og líffjölbreytni en einnig verkefni sem vinna gegn loftslagsbreytingum á jörðinni. Mikil áhersla er lögð á að upplýsa meðlimi samtakanna um verkefnin og árangurinn af þeim, meðal annars með myndböndum eins og því sem nú er komið út um verkefnið vestur á Mýrum.