Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Nýtt merki og vefur Loftslagsvæns landbúnaðar

21. mars 2024

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði á Búnaðarþingi nýjan vef Loftslagsvæns landbúnaðar. Á vefum má finna margvíslegt fræðsluefni sem varpar ljósi á loftslagsmál landbúnaðarins og gagnast bæði bændum og almenningi.

Berglind Ósk Alfreðsdóttir, framkvæmdastjóri Loftslagsvæns landbúnaðar, kynnir nýtt merki og vef verkefnisins á Búnaðarþingi 2024. Photo: Fífa Jónsdóttir

Búnaðarþing 2024 fór fram á Hótel Natura í Reykjavík 14. og 15. mars. Opnun nýs vefs Loftslagsvæns landbúnaðar er mikilvægt skref því hér er á ferðinni fyrsti íslenski vefurinn sem helgaður er sjálfbærni og loftslagsmálum í landbúnaði, eins og segir í fréttatilkynningu.

Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður hefur verið starfrækt í rúmlega fjögur ár í samstarfi Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Lands og skógar, matvælaráðuneytisins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Á þeirri vegferð hefur orðið til mikil þekking á loftslagsmálum landbúnaðarins, bæði hjá starfsmönnum verkefnisins en ekki síður hjá þeim bændum sem taka þátt í því. Verkefnastjóri Loftslagsvæns landbúnaðar er Berglind Ósk Alfreðsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærri matvælaframleiðslu og loftslagsmálum. Hún kynnti nýtt útlit og vef verkefnisins á Búnaðarþingi.

Með vefnum nýja er orðinn til vettvangur fyrir íslenska bændur til þess nálgast fræðsluefni um loftslagsvæna búskaparhætti og kynna sér aðgerðir og sjá raunverulegan árangur þeirra bænda sem eru í verkefninu.

Fram kemur einnig í fréttatilkynningunni að nú sé orðið til nýtt einkennismerki sem Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir hjá Cave canem hefur hannað. Þar sé unnið myndrænt með samspil jarðar og landbúnaðar. „Landbúnaðurinn umvefur jörðina og samspilið þeirra á milli þarf að vera heiðarlegt og loftslagsvænt til þess að jörðin nái einnig að umvefja landbúnaðinn. Til þess að við þrífumst á jörðinni þarf landbúnað, og til þess að jörðin haldist heilbrigð þarf landbúnaðurinn að fara vel með auðlindir hennar,“ eins og segir orðrétt í lýsingunni á merkinu.

Fræðsla með vef og bæklingum

Starfsmenn RML og Lands og skógar hafa einnig unnið í samstarfi við Ingibjörgu Berglindi tólf fræðslubæklinga þar sem farið er yfir uppsprettur gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði og leiðir til þess að draga úr þeim.

Markmiðið er að gera umfjöllun um loftslagsmál landbúnaðarins aðgengilega, bæði fyrir bændur og almenning. Hönnun vefsins auðveldar fólki að tileinka sér efni hans og fallega myndskreytt fræðsluefni gerir efnið sjónrænt aðlaðandi og nær athygli lesenda.

Á vefnum er að finna Íslandskort þar sem notendur geta kynnt sér fjölbreytnina í búrekstri þeirra sem taka þátt í Loftslagsvænum landbúnaði. Aðferðir Loftslagsvæns landbúnaðar geta nýst öllum bændum í sínum búrekstri enda eru loftslagsmálin viðfangsefni sem allir bændur þurfa að takast á við í sameiningu. Með vefnum nýja er leitast við að deila þeirri þekkingu sem hefur orðið til í verkefninu en einnig þeim árangri sem náðst hefur og vonast er til að allir bændur geti tileinkað sér.

Landbúnaðarverðlaunin

Á Búnaðarþingi afhenti Katrín Jakobsdóttir matvælaráðherra Aðalbjörgu Ásgeirsdóttur og Eyvindi Ágústssyni að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum landbúnaðarverðlaunin fyrir framúrskarandi árangur við innleiðingu loftslagsvænna búskaparhátta. Fífa Jónsdóttir tók meðfylgjandi mynd við það tilefni.

Handhafar landbúnaðarverðlaunanna 2024, Aðalbjörg Ásgeirsdóttir og Eyvindur Ágústsson, ásamt Katrínu Jakobsdóttur, starfandi matvælaráðherra.