Nýr bæklingur um votlendismál
1. júlí 2025
Kominn er út hjá Landi og skógi bæklingurinn Mýrar Íslands - Fræðslubæklingur um vernd og endurheimt mýra.

Þetta er tólf blaðsíðna myndskreyttur bæklingur þar sem farið er yfir þau áhrif sem framræsla mýrlendis hefur á landið sem ræst er fram. Reifuð eru rökin fyrir því hvers vegna skynsamlegt er að endurheimta votlendið á slíkum svæðum þannig að lífríkið færist í átt til fyrra horfs og að jöfnuður gróðurhúsalofttegunda á svæðinu verði jákvæður.
Tíunduð eru markmiðin með endurheimt votlendis og síðan farið yfir það verklag sem stuðst er við hjá Landi og skógi þegar votlendi er endurheimt, umsóknir og samningagerð sem snerta slík verkefni, kortlagningu, framkvæmdaleyfi og framkvæmd endurheimtarinnar. Sömuleiðis þá vöktun sem fram fer innan samningstímans og þátttakendur geta tekið þátt í ef þeir kjósa.
