Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Ný vísindagrein um kolefnisbindingu í jarðvegi birkiskóglendis

20. janúar 2025

Í grein sem birtist nýverið í hinu alþjóðlega ritrýnda vísindariti Science of The Total Environment er fjallað um rannsókn sem staðfestir enn betur en áður þá miklu möguleika sem felast í endurheimt birkis í þeim tilgangi að hamla gegn jarðvegsrofi og stuðla að kolefnisbindingu í jarðvegi vítt og breitt um Ísland.

077A0706

Titill greinarinnar á ensku er Soil carbon stocks of regenerating Icelandic native birch woodlands: Effects of space and time. Sólveig Sanchez er aðalhöfundur en meðhöfundar Jóhann Þórsson, Ólafur Arnalds, Randy Dahlgren og Ása L. Aradóttir.

Í útdrætti greinarinnar er tíundað hvernig vistkerfum og jarðvegshulu Íslands hefur hnignað stórlega frá landnámi. Rofið land og auðnir nái nú til um 45 prósenta landsins og þekja náttúrulegs birkiskóglendis sé einungis um eitt og hálft prósent á móti þeim 20 til 40 prósentum sem talið er að birkið hafi náð til áður en landið byggðist.

Jarðvegur á Íslandi er aðallega eldfjallajarðvegur sem hefur þá eiginleika að geta bundið í sér mikið kolefni. Þar með eru miklir möguleikar á kolefnisbindingu með uppgræðslu á þeim svæðum sem blásið hafa upp. Meðal forgangsverkefna Íslendinga er að breiða birkiskóglendið út á ný. Auk þess að endurheimta þetta náttúrulega skóglendi benda greinarhöfundar á að slíkar aðgerðir geti haft í för með sér umtalsverð áhrif á kolefnisbúskap landsins.

Markmið rannsóknarinnar sem fjallað er um í greininni var að skilgreina styrk kolefnis og kolefnisforða í mismunandi gömlum birkiskógi og við mismunandi vaxtarskilyrði, allt frá nýjum skógi upp í sextíu ára skóg og eldri. Rannsóknin náði til tíu svæða víðs vegar um landið. Mestur kolefnisforði greindist í elsta birkiskóginum þar sem hann reyndist vera að meðaltali 7,4 kíló kolefnis á fermetra í efsta þrjátíu sentímetra jarðvegslaginu. Það telst óvenjuhátt hlutfall í samanburði við laufskóga annars staðar á Norðurlöndunum. Skýringarnar rekja greinarhöfundar til eiginleika eldfjallajarðvegsins. Hann er ríkur af veðruðum gosefnum sem gera að verkum að lífræn efni geta auðveldlega bundist honum í ríkulegu magni.

Reiknuð árleg uppsöfnun kolefnis í jarðvegi reyndist vera 0,01 kíló á fermetra fyrstu 30 árin í nýju birkiskóglendi en 0,04 til 0,07 kíló á fermetra í fullþroska skóglendi (30–60 ára). Verði ráðist í stórfelld verkefni við endurheimt birkiskóglendis álíta greinarhöfundar að með því megi binda kolefni í jarðvegi sem nemur tuttugu prósentum af núverandi heildarlosun koltvísýrings á Íslandi, að frádreginni losun vegna landnotkunar (LULUCF).

Af mikilvægum niðurstöðum rannsóknarinnar benda greinarhöfundar sérstaklega á að áfok ryks eða fokefna reyndist hafa umtalsverð áhrif á kolefnisuppsöfnun í jarðveginum. Áfokið nam allt að einum millimetra á ári og bindingin sem af henni leiddi um 26 grömmum á fermetra á ári þar sem uppsprettur fokefna voru nálægar. Með því að klæða landið birkiskóglendi á ný verður jarðvegurinn enn stöðugri enda ver skógurinn jarðveginn fyrir roföflunum. Trén sjálf og annar lífmassi ofanjarðar þjónar sem skilvirkur rykfangari.

Þessi rannsókn sýnir þá möguleika sem felast í endurheimt birkiskóglendis í þeim tilgangi að hamla gegn jarðvegsrofi og stuðla að kolefnisbindingu í jarðvegi vítt og breitt um Ísland, eins og höfundar nefna í niðurstöðukafla greinarinnar. Að auki muni slík vistkerfi veita margvíslega aðra mikilvæga vistkerfisþjónustu svo sem að fóstra fjölbreytt lífríki, vera mikilvæg fræuppspretta og varðveita bæði erfðafræðilegan efnivið og líffræðilega fjölbreytni í þessum norðlægu vistkerfum.