Ný vefsjá um flokkun landbúnaðarlands
27. október 2025
Land og skógur hefur opnað upplýsingaveitu á vefnum þar sem sjá má á vefkorti niðurstöður flokkunar landbúnaðarlands í öllum sveitarfélögum landsins með tilliti til ræktunarhæfni.

Þessi upplýsingaveita er liður í þeirri vinnu sem Landi og skógi var falið að hafa forystu um samkvæmt landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024 til 2038 sem samþykkt var á Alþingi á síðasta ári. Þar er lögð áhersla á að allt ræktanlegt land sem hentar til matvælaframleiðslu verði kortlagt.
Vefsjáin sýnir heildarstærð kortlagðs ræktanlegs lands í hverju sveitarfélagi og hlutföll eftir gæðum landsins til ræktunar. Sjá má upplýsingarnar hvort sem er í hekturum eða ferkílómetrum.
Grunnflokkun ræktanlegs lands fyrir allt landið var unnin hjá Eflu verkfræðistofu með umsjón Lands og skógar. Flokkunin er byggð á leiðbeiningum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem þá var og aðferðum sem þróaðar hafa verið við Landbúnaðarháskóla Íslands.
