Ný stofnun byggð á traustum grunni
12. janúar 2024
Rætt er við Ágúst Sigurðsson, forstöðumann Lands og skógar, í fyrsta tölublaði Bændablaðsins á nýju ári. Þar er farið yfir feril Ágústs sem er erfðafræðingur og hefur starfað í því fagi en líka verið rektor LbhÍ með meiru. Hann segir grunnstef og meginmarkmið starfsemi hinnar nýju stofnunar vera að ná framúrskarandi árangri í að bæta gróður- og jarðvegsauðlindir Íslands og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra.
Í spjalli við Steinunni Ásmundsdóttur blaðamann segir Ágúst að í fyrstu skrefunum séu helstu áskoranirnar hreinlega þær að skpuleggja stofnunina, fag- og stoðsvið og hin ótalmörgu verkefni sem stofnunin sinnir. Einnig hvernig vinna megi þvert á svið og starfstöðvar og hver geri hvað. Ýmislegt þurfi líka að samræma frá eldri stofnununum tveimur í mannauði, fjármálum, bókhaldi, kerfum og stefnum.
Ágúst segir að stofnunin nýja ætli að taka með sér allt það góða sem hinar eldri stofnanir hafa staðið fyrir og byggja á því, „en skilja eftir það sem við þurfum ekki að nota,“ eins og hann segir orðrétt í viðtalinu og heldur áfram: „Við ætlum að hafa glögga yfirsýn og byggja okkar starf á traustri þekkingu, vísindalegum grunni og því sem best hefur reynst í vinnubrögðum. Þá leggjum við mikið upp úr því að setja okkur mælanleg markmið í sem flestum þáttum til að máta okkur við og finna út hvernig okkur miðar. Þetta er mjög mikilvægt finnst mér.“