Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Ný rannsókn sýnir möguleika til kolefnisbindingar á örfoka landi

27. október 2025

Niðurstöður vísindagreinar sem nýkomin er út í tímaritinu New Forests benda til þess að sjálfsáning stafafuru geti verið vænlegur kostur til að græða upp illa farið land á Íslandi og binda þar kolefni. Rannsóknin sýnir að furan getur sáð sér hratt út í gróðurlaus svæði en hægt þar sem er þétt gróður- eða mosaþekja. Greinarhöfundar telja auðvelt að hafa stjórn á útbreiðslu furunnar.

Dennis Riege við mælingar í Skarfanesi.

Enskur titill greinarinnar er Pinus contorta colonization and biomass accumulation in lands adjacent to plantations in Iceland. Aðalhöfundur hennar er bandaríski vistfræðidoktorinn Dennis A. Riege sem hefur stundað rannsóknir á Íslandi um árabil og stýrir langtímarannsókn hérlendis með stuðningi National Geographic Society. Meðhöfundar eru þrír sérfræðingar hjá Landi og skógi, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Bjarki Þór Kjartansson og Arnór Snorrason.

Rannsóknin er byggð á mælingum á útbreiðslu og vexti stafafuru (Pinus contorta) út frá gróðursettum skógum á fimm stöðum á Suður- og Suðvesturlandi. Mælingarnar voru gerðar á árunum 2015-2017 og endurteknar 2021-2022. Staðirnir voru Mógilsá, Heiðmörk, Straumur við Hafnarfjörð, Daníelslundur í Borgarfirði og Skarfanes í Landsveit. Markmiðið var að meta hversu hratt stafafura breiddist út frá eldri gróðursettum svæðum yfir á gróðurvana eða rýr svæði. Einnig að mæla hversu hratt lífmassi safnaðist upp við slíka náttúrulega skógarframvindu og þar með hversu mikil kolefnisbindingin yrði. Vitneskju um þessa þætti hefur skort hingað til á Íslandi, rétt eins og annars staðar á norðlægari slóðum.

Dennis Riege og Bjarki Þór Kjartansson við mælingar í Skarfanesi í september 2018.

Dennis og Bjarki Þór við mælingar í Skarfanesi. Ljósmynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Hraður vöxtur á beru landi

Rannsóknin er byggð á mæligögnum úr fimm föstum mælisniðum á Suður- og Suðvesturlandi þar sem fylgst var með sjálfsánum trjám í grennd við ræktaða skógarreiti. Greinilegt er af niðurstöðunum að stafafura breiðist auðveldlega út á opna mela og gróðurrýr svæði en mun hægari útbreiðsla mælist þar sem ofan á jarðveginum er þétt þekja af gróðri eða gamburmosa.

Eitt rannsóknarsvæðanna var í landi Mógilsár við Kollafjörð þar sem lífmassi sjálfsáinna trjáa fjórfaldaðist á sex vaxtarsumrum. Álíka aukning sást víðar á auðu landi. Í mosa- og graslendi var útbreiðslan minni og þar með lífmassavöxturinn. Það sama gilti um þéttan birkiskóg sem einnig virtist hindra sjálfsáningu furu. Þar varð sjálfsáningar helst vart við jaðra birkiskóglendisins en ekki að marki innan þess.

Veruleg kolefnisbinding á skömmum tíma

Rannsóknin sýnir að á svæðum þar sem fura er að nema land getur hún á fyrstu sex árunum bundið að meðaltali meira en eitt tonn af kolefni á hektara á ári (eða 3,7 tonn af CO2 á hektara á ári) og þá er eingöngu tekið mið af ofanjarðarlífmassa.

Greinarhöfundar þróuðu jafnframt jöfnu sem lýsir vexti lífmassa á fyrstu stigum sjálfsáningar og getur nýst við áætlanir um kolefnisbindingu á svæðum þar sem fura breiðist út með náttúrulegum hætti. Slíkt verkfæri getur komið að góðum notum í hvers kyns skógræktar- og landgræðsluverkefnum til að meta framvindu og ávinning.

Mat á lággróðri í Þjórsárdal. Ljósmynd: Dennis A. Riege.

Hagkvæmur kostur til eflingar landgæða

Stafafura er ein af þeim trjátegundum sem hafa reynst best í skógrækt á Íslandi undanfarna áratugi. Þótt tegundin sé álitin ágeng víða í heiminum draga greinarhöfundar þá ályktun af niðurstöðum sínum að auðvelt sé að hafa stjórn á útbreiðslu hennar við íslenskar aðstæður. Jafnframt geti hún gegnt mikilvægu hlutverki við að græða upp örfoka land og binda þar kolefni.

Enn fremur benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að þar sem tegundirnar stafafura og birki vaxa saman upp á skóglausu landi hafi þær beinlínis gagn af hvor annarri. Sá eiginleiki furunnar að geta snemma þroskað fræ og sáð sér út geri að verkum að almenn gróðurframvinda komist hraðar í gang á gróðurvana svæðum en ella. Þar með skapist jarðvegsskilyrði sem ýti undir útbreiðslu innlendra tegunda með tímanum.

Framlag til loftslagsmarkmiða

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að nýta megi náttúrulega framvindu skógar með sjálfsáningu stafafuru til að auka flatarmál gróins lands á Íslandi og auka um leið kolefnisbindingu. Greinarhöfundar benda á að niðurstöðurnar falli vel að markmiðum íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Sjálfsáning furu bjóði upp á hagkvæman og sjálfbæran kost til uppgræðslu á örfoka landi.

Myndir teknar á sama stað á Mógilsá 2015 og 2022. Ljósmyndir: Dennis A. Riege.

Greinin í New Forests:
Pinus contorta colonization and biomass accumulation in lands adjacent to plantations in Iceland