Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Námsstyrkir til verkefna sem snerta trjáfræ, trjáplöntuframleiðslu, endurnýjun skógar eða trjákynbætur

7. janúar 2025

Nemendur og starfandi sérfræðingar í skógvísindum sem vinna að verkefnum sem snerta fræ eða framleiðslu skógarplantna, aðferðir til endurnýjunar skógar eða kynbætur á trjátegundum eiga nú kost á að sækja um styrki sem SNS, Norrænar skógrannsóknir, og NordGen Forest, skógarsvið Norrænu erfðavísindastofnunarinnar veita í sameiningu. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar.

Námsstyrkir SNS og NordGen Forest. Ljósmynd: nordicforestresearch.org

AF HVERJU?

Svipað háttar til um loftslag og vaxtarskilyrði á Norðurlöndunum en sömuleiðis um stjórnsýslu skóga þar og skipan skógræktarmála. Í ljósi þess er talið mikilvægt að löndin miðli þekkingu sín á milli í faginu og hafi með sér samvinnu um rannsóknir. Þess vegna sameina SNS og NordGen Forest krafta sína til að gefa fólki færi á að afla þekkingar og miðla henni þvert á landamæri þessara þjóða í þeirri trú að samlegðaráhrif geri gagn og að við séum sterkari saman.

FYRIR HVERJA?

Starfandi fagfólk og nemendur sem vinna að verkefnum sem snerta fræ skógarplantna eða skógarplöntuframleiðslu, aðferðir til endurnýjunar skóga eða kynbætur á trjám geta sótt um þennan stuðning. Viðkomandi verkefni eða starfsemi verður að snerta Norðurlöndin með beinum hætti og stuðla að sameiginlegum ávinningi í þessum löndum. Lögð er áhersla á jafnrétti kynjanna og þátttöku og tekið mið af því í vali á styrkþegum.

TIL HVERS?

Til greina kemur að styrkja fólk sem til dæmis vinnur að meistaraverkefni og kann að þurfa að standa straum af ýmsum útgjöldum þess vegna. Eins gæti fólk sem hefur áhuga á að sækja ráðstefnu sem kemur því að beinum notum í starfi sínu. Námsdvöl í öðru ríki á Norðurlöndunum gæti gagnast fólki í námi eða starfi og eins kann fólk að hafa áhuga á því að miðla þekkingu sinni víðar um Norðurlöndin en eingöngu í heimalandinu. Þetta eru dæmi um verkefni sem gætu reynst styrkhæf.

Styrkinn má nýta upp í ferðakostnað, gistingu, ráðstefnugjöld, prentun ritgerðar, búnað, kostnað vegna rannsóknarstofu eða annað sem á einn eða annan hátt kemur norræna skógargeiranum að gagni. Hér neðar eru hlekkir á dæmi um fólk sem hlotið hefur styrki.

HVERSU MIKIÐ?

Sækja má um styrk að hámarki 25 000 norskar krónur.

Fyrri styrkþegar

Ítarlegri upplýsingar um þennan styrkjamöguleika (Word)

Sæktu um hér (til 15. febrúar 2025)

Nánari upplýsingar um námsstyrki SNS og NordGen Forest