Starfsfólk Lands og skógar á námskeiði um skógarvegi
8. apríl 2024
Ellefu starfsmenn frá Landi og skógi voru meðal þrjátíu þátttakenda á námskeiði um skógarvegi sem lauk á Hvanneyri í Borgarfirði sunnudaginn 7. apríl.
Á þessu þriggja daga námskeiði leiðbeindi norski sérfræðingurinn Fredrik Løvenskiold sem vinnur að skipulagningu skógarvega í Noregi. Að námskeiðinu stóð Skógfræðingafélag Íslands í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Mikill áhugi
Skógarþekja í Noregi er ríflega 33% af flatarmáli landsins og þar er rótgróin hefð á nýtingu skóga og timburafurða. Til að geta nýtt timbur úr fullvöxnum skógi þarf að höggva trén og flytja þau til frekari úrvinnslu. Því fleiri rúmmetra sem hægt er að flytja í einu því betra, annars verður flutningskostnaður of mikill og tímafrekur. Mörg tonn af timbri þurfa alvöru timburflutningabíla og fulllestaðir timburflutningabílar þurfa vegi sem þola öxulþungann. Skipulagning og lagning skógarvega er mjög mikilvæg og að ýmsu að huga til að timburflutningar geti gengið greiðlega þegar að skógarhöggi kemur.
Enn eru flestir skógar ungir á Íslandi og aðeins komið að snemmgrisjun. Þó hefur fyrsta grisjun farið fram í sumum þjóðskógum landsins og jafnvel önnur grisjun og einstaka lokahögg. Huga þarf að skógarvegum í íslenskum skógum sem séu nógu breiðir, hafi réttan halla og næga burðargetu svo timburflutningarbílar geti sótt timbrið án vandkvæða. Víst er að áhugi meðal íslenskra skógfræðinga og skógfræðinema er nægur því námskeiðið á Hvanneyri var fullbókað. Þrjátíu manns tóku þátt í því, þar af níu skógræktarráðgjafar af sviði ræktunar og nytja hjá Landi og skógi auk tveggja starfsmanna til viðbótar.
Í upphafi skyldi endinn skoða
Að ýmsu er að huga í undirbúningi á skipulagningu skógarvega. Auðvitað þarf að skoða hvernig landið liggur, hæðarlínur, vatnsbúskap og það vegakerfi sem þegar er til staðar. Sömuleiðis þarf að huga að því hvar í skóginum besta timbrið er að finna, því við viljum hafa sem stysta leið að besta timbrinu. Gott er að hafa í huga hvort samnýta megi vegi með nágrannajörðum, kanna hvort á svæðinu sé nýtanlegt efni í undirlag og fleira. Einnig eru ýmsar takmarkanir á því hvernig timburflutningabíll sem er 20-25 metrar á lengd og tugir tonna að þyngd getur athafnað sig í skógi. Vegurinn þarf helst að vera fjögurra metra breiður, halli ekki meiri en 12% með tóman bíl og 10% með fullan bíl og beygjur í skógi mega ekki vera of krappar. Þannig getur vegaslóði sem hentaði vel fyrir fjórhjól í plöntuflutningum verið ófær timburflutningabíl. Þegar Fredrik Løvenskiold hannar skógarvegi í Noregi þarf hann að skoða landslagið undir trjánum og velja bestu leiðina. Skógarhöggsvél fellir svo öll tré í vegarstæðinu áður en að lagningu vegarins kemur. Á Íslandi er gjarnan byrjað með autt blað í upphafi skógræktar og þá er auðvelt að sjá hvernig landið liggur. Á því stigi er kúnst að geta horft til framtíðar og séð fyrir sér stóra timburflutningabílinn og veginn sem honum passar í fyllingu tímans.
Í upphafi skyldi endinn skoða og tíma í undirbúning og upplýsingaöflun er vel varið ef komið er í veg fyrir að endurgera þurfi vegi vegna þess að beygjur eru of þröngar, skurðbarmar við vegi of brattir, ræsi á röngum stöðum, brekkur of brattar, vegaxlir vantar eða vatnshalli rangur, svo eitthvað sé nefnt. Þetta námskeið er því kærkomið og mun nýtast vel í störfum skógarvarða, skógræktarráðgjafa, skógareigenda og vélaverktaka.
Heimild og myndir. Sigríður Hrefna Pálsdóttir