Moldirnar standa ekki lengur undir nafni
18. desember 2025
Landgræðslufélag Biskupstungna hefur um árabil staðið að uppgræðslu á svæði norðan Bláfellsháls þar sem kallaðar eru Moldir. Nú þykir svæðið vera orðið svo vel gróið að Moldir séu ekki lengur réttnefni. Síðsumars var svæði á Tunguheiði opnað aftur fyrir beit eftir áratuga uppgræðslustarf og forvitnilegt verður að fylgjast með áhrifum beitarinnar þar.

Gróskumikill gróður kominn þar sem kallaðar hafa verið Moldir. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson
Þetta kom fram á aðalfundi Landgræðslufélags Biskupstungna sem haldinn var í Bergholti í byrjun desember. Í skýrslu stjórnar sem formaðurinn Ingvi Þorfinnsson flutti kom meðal annars fram að í júní hefði verið borið á hefðbundin svæði á Biskupstungnaafrétti. Byrjað var við Sandá og borið á vestan Rótarmannagils og í kringum Fremstaver. Síðan var haldið yfir Bláfellsháls og borið á Moldirnar norðan í Bláfellinu við Lambafell. Ingvi segir að svæðið sé orðið nær algróið og því varla við hæfi að kalla það lengur þessu nafni. Breytinguna má sjá á meðfylgjandi myndum sem Garðar Þorfinnsson, sérfræðingur hjá Landi og skógi, tók á svæðinu.

Auk áðurnefndra svæða var unnið á svæðum norðan Hvítár. Borið var á Svartártorfurnar sunnan við Árbúðir og sömuleiðis á rofabörð fyrir innan Árbúðir austan ár. Vestan Svartár var borið á svæði alla leið inn að Fúlukvísl. Á þessu síðastnefnda svæði hefur félagið mest unnið síðustu ár. Alls var í sumar dreift 48 tonnum af Yara-áburði 27-3-3. Auk þess voru þrjú tonn borin á fyrir Lionsklúbbinn Baldur sem sinnir uppgræðslugirðingu á svipuðum slóðum nærri Svartá.
Í byrjun október var haldið aftur til uppgræðslustarfa á afréttinum og að þessu sinni var dreift úr 74 heyrúllum norðan við Árbúðir. Seinna í mánuðinum var dráttarvél með skítakvísl framan á beitt til að dreifa úr 64 rúllum til viðbótar í torfur sunnan við Brunnalæki. Um svipað leyti voru fluttar 47 rúllur í Sandvatnshlíð þar sem þær bíða betri tíma því ekki vannst tími til að dreifa úr þeim áður en að vetur gekk í garð.

Ingvi Þorfinnsson formaður minntist á svæðið á Tunguheiði sem fjallað hefur verið um hér á vef Lands og skógar og afhent var bændum í sumar eftir áralanga friðun og uppgræðslustörf. Þar voru um 2.500 hektarar friðaðir fyrir beit 1998 og hafin uppgræðsla stórum stíl en síðsumars var svæðið opnað aftur fyrir beit og sagði Ingvi fróðlegt að sjá hvernig gróðurinn myndi standa sig eftir afléttingu friðunar, sér í lagi lúpínan. Ekki væri víst að beitin síðsumars myndi hafa mikil áhrif á lúpínuna en það myndi tíminn einn leiða í ljós.
Fram kom enn fremur í máli Ingva að mest af því fé sem Landgræðslufélag Biskupstungna hefur til ráðstöfunar kemur úr Landbótasjóði sem er í umsjón Lands og skógar. Úr sjóðnum fékk félagið úthlutað um 6,7 milljónum króna í ár en á móti leggur félagsfólk vinnu sína og tæki til verkefnanna. Ingvi þakkaði öllum sem tóku þátt í landgræðslustarfinu á árinu vel unnin störf með von framhald á næstu árum, en einnig Landi og skógi fyrir stuðning, bæði með fjármagni og ýmiss konar aðstoð.

Gestur aðalfundar Landgræðslufélags Biskupstungna var Oddný Steina Valsdóttir frá Butru í Fljótshlíð sem flutti erindi. Hún fjallaði um Þar fjallaði hún um góðan árangur af uppgræðslu fjölskyldunnar á Butru og öflugu uppgræðslustarfi fjallskilanefndar Fljótshlíðar á Fljótshlíðarafrétti þar sem stór svæði hafa verið grædd upp, vegur lagfærður og rof stöðvað með fram honum. Oddný fjallaði um áhrif beitar og stýringu hennar en greindi að lokum frá verkefni sem kallast Digi Rangeland og Landbúnaðarháskóli Íslands tekur þátt í. Þar eru stafrænar lausnir nýttar til að glíma við úrlausnarefni sem blasa við beitarbúskap í Evrópu.
Garðar Þorfinnsson sat fundinn fyrir hönd Lands og skógar.

Svæði sem grætt hefur verið upp við Árbúðir. Ljósmynd: Garðar Þorfinnsson
