Metfjöldi á heimsráðstefnu IUFRO í júní - vertu með!
2. maí 2024
Enn er hægt að skrá sig á heimsþing IUFRO, stærstu alþjóðlegu skógvísindaráðstefnu heims sem fram fer í Stokkhólmi í sumar. Metfjöldi er þegar skráður á ráðstefnuna, yfir 4.000 fulltrúar hvaðanæva úr heiminum. Kynjahlutfallið er gott því 45% skráðra þátttakenda eru konur.
Ráðstefnan stendur í viku og þar verða 4.500 kynningar á öllu því nýjasta í skógartengdum rannsóknum. Fjallað verður um mikilvæg efni eins og líffjölbreytni, lífhagkerfi, seiglu skóga og sjálfbærni samfélaga, svo nokkuð sé nefnt.
Í tilkynningu frá forsvarsfólki viðburðarins segir að þetta sé ekki bara þing heldur einstakt tækifæri til að hitta aðra sérfræðinga og deila þekkingu og innsýn en líka tengjast leiðtogum og stjórnendum úr skógariðnaðinum. Á þinginu gefst líka tækifæri til að láta heimsbyggðina heyra til sín og sjá svo um munar því á staðnum verða um 120 blaðamenn víða að úr heiminum.
„Skráðu þig í dag og miðlaðu af þekkingu þinni og framtíðarsýn - Stokkhólmur bíður eftir að þú komir með!“ segir í tilkynningu frá heimsþingi IUFRO 2024 sem Svíar halda í samvinnu við hinar Norðurlandaþjóðirnar og Eystrasaltslöndin. Ein skoðunarferð verður farin til Íslands í tengslum við ráðstefnuna og svo er líka góður hópur Íslendinga þegar skráður á þingið, þar á meðal fulltrúar frá Landi og skógi sem kynna munu íslensk skógræktarmál og skógrannsóknir.
Skráning á https://iufro2024.com/registration-and-fees/