Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Markviss skógrækt á lögbýlum að skila sér

11. mars 2024

Í spjalli við Bændablaðið á dögunum sagði Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri ræktunar og nytja hjá Landi og skógi, frá skógrækt á lögbýlum sem hún segir að hafi reynst bæði þarft og traust byggðaverkefni. Þátttakendur séu dreifðir um allt land á tæplega 700 lögbýlum.

Skógræktarráðgjafar hjá Landi og skógi. Ljósmynd: Hrefna Jóhannesdóttir

Í spjalli við Steinunni Ásmundsdóttur blaðamann í Bændablaðinu 8. febrúar rekur Hrefna sögu samstarfsins við bændur um skógrækt allt aftur til Fljótsdalsáætlunar um 1970 og þá þróun sem leiddi til þess fyrirkomulags sem nú hefur verið um árabil á skógrækt á lögbýlum.

Hrefna bendir á að skógarauðlindin sem er að verða til um allt land sé mikilvæg, hún skapi skjól fyrir menn og málleysingja auk þess sem hún skapi betri ræktunarskilyrði fyrir aðrar nytjategundir og bæti jarðvegs- og vatnsbúskap. „Með tímanum verða til verðmætar viðarnytjar sem efla atvinnulíf og sjálfbærni auk þess sem skógrækt stuðlar að kolefnisbindingu,“ segir Hrefna orðrétt í spallinu við Bændablaðið.

Fram kemur hjá Hrefnu að nú sé áhersla í ræktuninni farin að færast í auknum mæli yfir á grisjun skóganna eftir því sem þeir vaxa upp. Af krefjandi viðfangsefnum nefnir hún skipulagsmálin sem oft séu flókin og kostnaðarsamt að leysa úr þeim. Nú séu tæplega 700 lögbýli víðs vegar um landið þátttakendur í skógrækt á lögbýlum og samtals um 55 þúsund hektarar samningsbundir. Gróðursett hafi verið í ríflega helming þess lands.

Komið er inn á framtíðarnytjar skóganna og áherslubreytingar sem verða eftir því sem fram vindur í ræktun skóganna. Eins og staðan er í dag sé eftirspurn umfram framboð á íslenskum viði. Skógarbændur verði að sinna umhirðu ungskóganna til að þeir verði verðmætir í framtíðinni, grisja, snyrta og gróðursetja íbætur. Hrefna telur að búast megi við einhverri samþættingu á áherslum með tilkomu sameinaðrar stofnunar, Lands og skógar. Áætlanir um landnotkun verði að einhverju leyti heildstæðari.

Viðtalið allt má lesa í Bændablaðinu 8. febrúar og einnig birtist það á vef blaðsins, bbl.is: