Losun vegna landnotkunar eykst en binding eykst í skógum
6. júní 2024
Á Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar sem fram fór fyrir skömmu var farið yfir þróun losunar og bindingar á Íslandi. Í ljós kom að árið 2022 jókst heildarlosun Íslands um tæplega eitt prósent frá árinu á undan. Losun vegna landnotkunar jókst um sömu tölu en fram kom einnig að binding skóglendis hefur sautjánfaldast frá árinu 1990. Tölur um losun og bindingu í landnotkunarflokknum eru meðal annars byggðar á umfangsmikilli vinnu sérfræðinga Lands og skógar.
Á Loftslagsdeginum sem fram fór í Hörpu 28. maí flutti Chanee Jónsdóttir Thianthong, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, erindi þar sem hún fór yfir losunarbókhald Íslands, það er að segja reiknaða losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum innan landamæra Íslands. Losun Íslands skipti hún í þrjá flokka út frá skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum, landnotkun (LULUCF), viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) og samfélagslosun (ESR) sem áður var kölluð „losun á beinni ábyrgð Íslands“.
Við losum langmest Norðurlandaþjóða á mann
Losun þessi var 12,4 milljónir tonna árið 2022. Þar af nam losun í landnotkunarflokknum 7,8 milljónum tonna eða 62 prósentum af heildarlosun Íslands. Losun vegna landnotkunar má fyrst og fremst rekja til framræslu votlendis. Af Norðurlandaþjóðunum er nettólosun Íslendinga mest á hvert mannsbarn, 33 tonn, en annars staðar á Norðurlöndunum er nettólosun alls staðar undir tíu tonnum á mann, langminnst þó í Svíþjóð vegna mikillar bindingar skóganna þar.
Þessar háu tölur á mann hérlendis helgast fyrst og fremst af landnotkunarflokknum og þá aðallega af mikilli losun frá framræstu landi. Í flestum Evrópulöndum er meiri binding en losun í landnotkunarflokknum. Hjá okkur er þessu öfugt farið. Losun er miklu meiri en binding í flokki landnotkunar. Ef landnotkunarflokkurinn væri ekki til staðar væri losun á mann á Íslandi um tólf milljónir tonna á mann.
Chanee fór ítarlega yfir áðurnefnda þrjá flokka losunarbókhaldsins og þar komu ýmis áhugaverð atriði fram. Við látum duga að nefna aðeins landnotkunarflokkinn en hér að neðan er hlekkur á myndband með erindi hennar og sömuleiðis á frétt á vef Umhverfisstofnunar um losunar- og bindingarstöðu Íslands 2022. Þar er meðal annars bent á nýja gagnvirka vefsamantekt um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sem hefur verið gefin út á vef Umhverfisstofnunar. Hún gefur helstu upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi ásamt umfjöllun um skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Losun vegna landnotkunar
Losun vegna landnotkunar á Íslandi var 7,8 milljónir tonna koltvísýringsígilda árið 2022. Það er aukning um eitt prósent frá árinu 2021. Stærstu uppsprettur losunar vegna landnotkunar eru mólendi (77%), ræktað land (19%) og votlendi (11%). Sem fyrr segir stafar meirihluti losunar frá landnotkun af framræstu votlendi og er sú losun talin fram bæði undir mólendi og ræktuðu landi eftir aðstæðum.
Binding vegna landnotkunar
Árið 2022 nam binding skóglendis á Íslandi um 505 þúsund tonnum koltvísýringsígilda og hefur sautjánfaldast frá árinu 1990. Skóglendi er eini landnýtingarflokkurinn þar sem er nettóbinding á Íslandi. Í öllum hinum flokkunum, votlendi, ræktuðu landi og mólendi, reynist losun meiri en binding. Með því að endurheimta votlendi má draga úr losun í landnotkunarflokknum því jafnvel þótt metanlosun aukist við slíkar aðgerðir hefur hún minni áhrif en sem nemur minnkaðri losun frá framræstu landi, eins og fram kom í máli Chanee Jónsdóttur Thianthong, sérfræðingi hjá Umhverfisstofnun.
Undir lok erindis síns sýndi Chanee að á brattann er að sækja ef Ísland ætlar að halda sig innan þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem landið hefur undirgengist, hvað þá ef markmið stjórnvalda fyrir 2030 eiga að nást. Hún nefndi þó að tækifærin væru mörg til að ná árangri:
Í landnotkunarflokknum með endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt.
Í ETS-flokknum með bættum framleiðsluaðferðum, notkun lífmassa og nýsköpun.
Í flokki samfélagslosunar með betri neyslu- og samgönguvenjum ásamt orkuskiptum
Sjá má öll erindi og umræður frá Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar á Youtube-rás stofnunarinnar.