Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Loftslagsvænn landbúnaður – bændur varða veginn

7. október 2025

Fjórar vinnustofur voru haldnar á bændabýlum víða um land í sumar undir merkjum Loftslagsvæns landbúnaðar. Þar voru aðgerðir á vettvangi skoðaðar og ræddar leiðir til að bæta búskapinn með loftslagsmál í huga. Víða eru í gangi verkefni sem snerta hlutverk og skyldur Lands og skógar svo sem skjólbeltarækt, beitarstýring, skógrækt og uppgræðsla.

Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður hefur verið í gangi frá árinu 2020 í samstarfi Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Lands og skógar og ríkisins. Í byrjun árs 2025 voru 55 bú skráð í verkefnið. Markmiðið er einfalt, að bæta kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með nýjum og betri búskaparháttum.

Vinnustofur um land allt

Sumarið 2025 voru haldnar fjórar vinnustofur á bæjum víða um land, á Bessastöðum í Hrútafirði, Heiðarbæ í Þingvallasveit, Egilsstöðum í Fljótsdal og Fljótshólum í Flóahreppi. Þar hittust bændur, ráðunautar RML og sérfræðingar Lands og skógar til að skoða aðgerðir á vettvangi og ræða leiðir til að bæta búskap með loftslagsmál í huga.

Víða mátti sjá verkefni sem endurspegla starf og hlutverk Lands og skógar.

  • Skjólbeltarækt sem bætir vaxtarskilyrði, eykur uppskeru og verndar búfé í vondum veðrum.

  • Beitarstýringu og nýjar tæknilausnir sem hjálpa til við að koma í veg fyrir ofbeit.

  • Skógrækt sem bindur kolefni og skapar nýtingarmöguleika á timbri og eldiviði.

  • Uppgræðslu sem styrkir jarðveg, bætir vatnsbúskap og eykur líffræðilega fjölbreytni.

Fræðsla og samtal

Til að styðja við bændur verða haldnir mánaðarlegir hádegisfyrirlestrar um hagnýt atriði, svo sem skjólbeltarækt, votlendisendurheimt, áburðarnotkun og nýtingu sólarorku í landbúnaði. Að fyrirlestrum loknum skapast oft góðar óformlegar umræður sem hjálpa bændum að læra hver af öðrum og viðhalda tengslum.

Sterkara samfélag bænda

Framtíð verkefnisins byggist á því að bændur deili reynslu og hugmyndum sín á milli. Þannig verður til öflugt lærdómssamfélag sem getur haft áhrif langt út fyrir hópinn sem þegar er þátttakandi.

Með samvinnu, fræðslu og jákvæðum fyrirmyndum er hægt að gera íslenskan landbúnað enn loftslagsvænni og sjálfbærari.

Nánar má lesa um Loftslagsvænan landbúnað á loftslagsvaennlandbunadur.is.