Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Lionsfólk ríður á vaðið við söfnun á birkifræi

9. október 2025

Það rigndi lítið eitt og blés af sunnan þegar sprækur hópur Lionsfélaga kom saman á Kjalarnesi 30. september til að taka þátt í landsátakinu Söfnum og sáum birkifræi og hóf þar með átakið formlega þetta árið. Þótt víða sé lítið af fræi á birki í ár má vel finna góða staði og safna talsverðu magni.

Átakið hófst 2020 en að baki verkefninu stendur Land og skógur. Verkefnastjóri þess, Kristinn H. Þorsteinsson, kynnti verkefnið. Áður en fólk hófst handa við að safna fór hann yfir hvernig best væri að haga birkitínslu og sáningu. Að stuttri kynningu lokinni var gengið út í birkiskóg og byrjað að tína.

,,Markmið Íslands með átakinu er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú. Það er í senn metnaðarfullt og mikilvægt starf að auka þekju birkiskóga og birkikjarrs í 5%. Það verður ekki auðvelt og því er mikilvægt að virkja sem flesta til reyna að ná þessu 5% markmiði. Hugmyndafræði birkiverkefnisins er þátttökunálgun og því á þetta ágæta fólk sem tekur þátt í þessu mikilvæga starfi miklar þakkir skildar,“ segir Kristinn.

Dagný Finnsdóttir, umhverfisstjóri Lionshreyfingarinnar, sagði að þetta hefði verið ánægjuleg stund og þrátt fyrir að frekar lítið hefði verið af fræi á svæðinu og reyndar á suðvesturhorninu almennt hefði mátt finna tré og tré sem voru þakin fræjum og gáfu af sér heil ósköp.

„Við vorum samankomin frá þremur klúbbum, Lionsklúbbi Mosfellsbæjar. Lionsklúbbi Grindavíkur, Lionsklúbbi Mosfellsbæjar og Lionsklúbbnum Úu. Við náðum að safna tugþúsundum fræja og erum ekki hætt því það er að fara af stað söfnun á okkar vegum víðsvegar á landinu þessa dagana. Við vitum að það er mikið af fræi á trjám víða á landinu eins og til dæmis í Vesturbyggð, víða á niðri á fjörðum fyrir austan og kringum Hvammstanga svo eitthvað sé nefnt. Ég lærði í þessari söfnunarferð að jafnvel þegar talað er um að lítið sé af fræi á trjám almennt um landið þá má oftast finna nóg ef vel er að gáð til að fylla einn bauk eða meira,“ segir Dagný sem er stolt af sínu fólki og full af þakklæti til fyrirtækisins Villimeyjar sem veitti Lions góðan stuðning og lánaði aðstöðu.

Að lokinni söfnun kom hópurinn saman og gæddi sér á kleinum og pönnukökum og yljaði kroppinn með kaffi og kakó að íslenskum sið.