„Lífið í skóginum“ verður þema Fagráðstefnu skógræktar 2026
25. nóvember 2025
Fagráðstefna skógræktar 2026 fer fram á Stracta Hótel Hellu 18. og 19. mars. Þema fyrri dags ráðstefnunnar að þessu sinni verður lífið í skóginum. Seinni daginn verða fjölbreytt erindi um ýmis skógarmálefni.

Stracta hótel Hellu. Ljósmynd: Stracta
Fagráðstefna skógræktar er haldin í samstarfi Lands og skógar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Ráðstefnan er eins og heitið gefur til kynna vettvangur þekkingarmiðlunar og umræðu í skógargeiranum. Ráðstefnan hefur verið haldin frá því um aldamótin og hleypur til milli landshluta frá ári til árs. Síðast var hún haldin á Hallormsstað og þar áður á Akureyri.
Fyrirlestrar og umræður um eitt ákveðið þema mynda ávallt dagskrá fyrri dags ráðstefnunnar, sem að þessu sinni er „lífið í skóginum“ og snýr einkum að líffjölbreytni í skógum og hvernig tryggja megi fjölbreytnina, meðal annars með gæðaviðmiðum og stöðlum, rannsóknarstarfi og miðlun þekkingar. Þemað tengist líka skógum og samhengi þeirra við líf og lífsafkomu fólks.
Seinni daginn er rými fyrir hvers kyns málefni sem tengjast skógum og skógrækt, rannsóknum, menntun, nýsköpun og tækni öllu sem lýtur að skógartengdum málefnum. Dagskrá þemadagsins verður kynnt í janúar og þá verður einnig auglýst eftir erindum fyrir seinni dag ráðstefnunnar ásamt veggspjöldum. Upplýsingar um skráningu fylgja í kjölfarið.
