Landbótasjóður úthlutar styrkjum til 92 verkefna
15. mars 2024
Hæsti styrkur Landbótasjóðs á þessu ári nemur 6,1 milljón króna. Umsóknir um styrki voru 98 talsins að þessu sinni og hlutu 92 verkefni styrk.
Árlega er úthlutað styrkjum úr Landbótasjóði í því augnamiði að færa ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna heim í héruð og veita landeigendum, sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum umráðahöfum lands styrki til landbótaverkefna.
Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum í byrjun árs og bárust alls 98 umsóknir. Unnt reyndist að veita 92 verkefnum stuðning og nemur hæsti styrkurinn að þessu sinni 6,1 milljón króna. Meðalupphæð styrkja er um 1,1 milljón. Þessa dagana er unnið að því að senda styrkþegum niðurstöður úthlutunarinnar gegnum vefinn Ísland.is.
Hlutverk í samstarfinu
Hlutverk styrkþega í þessu samstarfi við Land og skóg er að útvega öll nauðsynleg aðföng svo sem tilbúinn eða lífrænan áburð, sjá um dreifingu áburðarins, kortleggja verkefnið með GPS-staðsetningu og skila til Lands og skógar ásamt upplýsingum um magn áburðarefna sem dreift var.
Hlutverk lands og skógar er aftur á móti að veita ráðgjöf um verkefnin, útvega fræ þar sem þess er talin þörf, halda utan um allar landfræðilegar upplýsingar (GPS og fleira) um verkefnin og að verki loknu að greiða út hinn veitta styrk.
Land og skógur leggur mat á kostað við öll verkefnin. Þannig er reynt að tryggja jafnræði milli þeirra sem sækja um hjá sjóðnum. Greiddir eru hærri styrkir til þeirra sem vinna á friðuðu landi en beittu. Flestar umsóknir sem berast eru fyrir verkefnum sem unnin verða á eldgosabeltum landsins og þar með rennur stærsti hluti styrkjanna til þeirra svæða.
Helstu tölur
Hér eru nokkrar áhugaverðar tölur um væntanleg verkefni ársins með stuðningi Landbótasjóðs. Þær gefa nokkra hugmynd um eðli verkefnanna.
Styrkir til áburðardreifingar - um 3.300 ha
Sáning á gras- eða melfræi - um 500 ha
Dreifing á lífrænum áburði - um 400 ha
Dreifing á heyrúllum - um 2.100 stk.
Gróðursetning á birki - um 92.000 stk.
Nánari upplýsingar um styrkþega og styrkupphæðir verða birtar síðar hér á vef Lands og skógar.