Land og skógur með í Surtseyjarrannsóknum
15. ágúst 2025
Blaðlýs virðast vera helsti skaðvaldurinn á plöntum í Surtsey í ár en beit þeirra var þó ekki mikil, samkvæmt rannsóknum Brynju Hrafnkelsdóttur, skordýrafræðings hjá Landi og skógi, sem vann meðal annars að skrásetningu blaðlúsa og annarra beitarskordýra í eynni nú í júlímánuði.

Náttúrufræðistofnun stóð fyrir árlegum rannsókna- og vöktunarleiðangri til Surtseyjar í sumar og dvaldi hópur líffræðinga í eyjunni dagana 12.-15. júlí. Í ferðinni tóku þátt sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landi og skógi og bresku sóttvarnastofnuninni UK Health Security Agency. Einnig voru listamaður og sérfræðingur frá Náttúrvendarstofnun með í för.

Fulltrúi Lands- og skógar í leiðangrinum var Brynja Hrafnkelsdóttir skordýrafræðingur. Rannsakaði hún gæsa- og skordýrabeit á plöntum í föstum mælireitum í eyjunni auk þess að skrásetja blaðlýs og önnur beitarskordýr á svæðinu. Einnig safnaði hún blaðlúsum á ýmsum plöntutegundum til frekari greiningar. Þetta er góð viðbót við það mikla rannsóknastarf sem skordýrafræðingar Náttúrfræðistofnunar hafa haldið uppi í eyjunni í áranna rás.

Að sögn Brynju var skordýrabeitin ekki mikil en þetta sumarið virðist blaðlýs vera helsti skaðvaldurinn á plöntum í Surtsey. Lesa má nánar um leiðangurinn á vef Náttúrufræðistofnunar en á meðfylgjandi myndum sést Brynja við beitarannóknir í föstum mælireitum í Surtsey nú í sumar. Við sjáum líka myndir sem Brynjatók af blaðlúsum á melstrái og ertuyglu á sóleyjarblaði ásamt svipmynd af náttúru og lífríki Surtseyjar.

