Fara beint í efnið
Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Land og skógur fékk brons

2. október 2024

Á ársfundi Orkustofnunar sem haldinn var í Hofi á Akureyri í liðinni viku voru veittar viðurkenningar opinberum stofnunum sem náð hafa ákveðnum áföngum í orkuskiptum í bílaflota sínum. Hlutfall rafbíla hjá Landi og skógi er nú um þriðjungur og því fékk stofnunin brons.

Fulltrúar stofnana sem tóku við viðurkenningu ásamt ráðherra og fulltrúum Orkustofnunar. Ljósmynd: Orkustofnun

Í nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er að finna aðgerð sem nefnist Full orkuskipti ríkisflota og samgönguþjónustu fyrir 2030. Hún felur í sér að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki ljúki orkuskiptum á bílaflota sínum fyrir árið 2030 í flokki fólksbíla og sendibíla. Allar fólks- og sendibifreiðar í eigu og notkun ríkisins eiga þá að aka að fullu á íslenskri, endurnýjanlegri orku í lok árs 2029. Orkustofnun bendir á í frétt á vef sínum að rafknúnar samgöngur séu að jafnaði hagkvæmari þegar kaup og rekstur er borinn saman við bensín- og dísilbíla.

Þar kemur jafnframt fram að aðgerðaáætlunin hafi verið unnin í góðu samstarfi við Bílgreinasambandið þar sem sérfræðingar töldu enga tæknilega annmarka á því að rafknúin ökutæki, í flokki fólks- og sendibíla, gætu tekið við jarðefnaeldsneytisbílum í starfsemi ríkisins á næstu sex árum. Ef einhverjir bílar henta ekki í dag þá muni það örugglega breytast á næstu sex árum með nýjum tegundum rafbíla.

Orkuskipti í samgöngum hjá ríkinu eru komin á rekspöl en ríkisstofnanir eiga að setja sér orkuskiptaáætlun til 2030 og festa í sessi reglur um kaup á samgönguþjónustu sem tryggir nýtingu á rafknúnum ökutækjum sem nota íslenska og mengunarlausa raforku.

Liður í þessu starfi er að hvetja ríkisstofnanir til dáða og því hefur Orkustofnun sett upp viðurkenningarkerfi fyrir stofnanir sem verðlaunar þær eftir því sem þær ná betri árangi í orkuskiptunum. Í boði er brons, silfur, gull og platína.

Viðurkenning fyrir árangur í orkuskiptum bifreiðaflotans

Á ársfundi Orkustofnunar sem fram fór í Hofi á Akureyri 26. september voru viðurkenningar veittar í fyrsta sinn að viðstöddum Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og fulltrúum Orkustofnunar. Fyrsta stofnunin sem hlýtur platínu fyrir að hafa skipt út öllum jarðefnaeldsneytisbílum fyrir rafbíla var Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Viðurkenningin er í formi skafmiða og hugmyndin er að stofnanir skafi af henni eftir því sem tekst að auka hlutfall rafbíla í flotanum. Guðlaugur Þór ráðherra skóf af gullmerkinu fyrir hönd Umbru, þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins, sem er komin langleiðina í orkuskiptunum. Gull fékk líka Lögreglustjórinn á Vesturlandi en þar er raforka nú yfir 90% af orkunotkun í bílaflotanum. Hjá Landi og skógi er nú um þriðjungshlutfall rafbíla af þeim bílum sem falla undir markmiðin og fékk stofnunin því brons.

Á myndinni að ofan eru fulltrúar ríflega helmings þeirra stofnana sem fengu boð um að taka við viðurkenningu á ársfundi Orkustofnunar. Lengst til hægri er Halla Logadóttir orkumálastjóri og lengst til vinstri Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðstjóri loftslagsbreytinga og nýsköpunar hjá Orkustofnun, en Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir miðju.