Kynning á Bonn-áskoruninni í beinu streymi á COP30
12. nóvember 2025
Sérstakt málþing um landnotkun og samfélög fólks verður haldið í beinu streymi mánudaginn 17. nóvember á loftslagsráðstefnunni COP30 sem nú stendur yfir í Belém í Brasilíu. Þar verður meðal annars litið yfir þau fimmtán ár sem brátt eru liðin frá því að Bonn-áskoruninni var hleypt af stokkunum.

Fyrir málþinginu stendur Global Landscapes Forum sem er alþjóðlegur samstarfsvettvangur um sjálfbæra nýtingu lands og náttúruauðlinda sem tengir saman fólk um allan heim, hvort sem það er almenningur, vísindafólk, stjórnmálafólk eða fólk úr atvinnulífinu, fjárfestar eða aðrir.
Skoða má dagskrá málþingsins hér en það sem ef til vill vekur helst áhuga Íslendinga er umfjöllun og umræða um Bonn-áskorunina sem er á dagskrá klukkan 18.15 að íslenskum tíma (15.15 í Belém). Þar verður Bonn-áskorunin kynnt og árangurinn metin þau fimmtán ár sem verða liðin á næsta ári frá því að verkefnið hófst. Við þau tímamót gefst færi á að meta hvaða áhrif verkefnið hefur haft á vistkerfi, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og seiglu samfélaga þess fólks sem býr á hverju svæði fyrir sig. Lönd heimsins hafa heitið því að vinna eftir áskoruninni á 220 milljónum hektara. Þá er spurt hvernig hafi gengið, hvar séu gloppur í verkefninu og hvernig blása megi í glæður metnaðar og markmiða fram til 2030 í síbreytilegu samhengi loftslagsmála og markmiða um líffjölbreytni.
Íslendingar hafa tekið Bonn-áskoruninni með því að setja sér markmið um að útbreiðsla birkiskóglendis verði aukin upp í fimm prósent af flatarmáli landsins
Þessi stutta kynning á málþingi Global Landscapes Forum á COP30 í Brasilíu er öllum opin að kostnaðarlausu og má skrá sig á vef samstarfsnetsins. Þetta er tækifæri til að íhuga þau áhrif sem verkefnið hefur haft á vistkerfi, mótvægi gegn loftslagsbreytingum og á seiglu samfélaga.
