Kolefnismarkaðir mikilvægir fyrir loftslagsmarkmiðin
7. nóvember 2025
Fjölbreyttur hópur kom saman á málstofu um kolefnismarkaði með yfirskriftinni Markaðsaðstæður og fjármögnun náttúrutengdra lausna sem haldin var á Kjarvalsstöðum í Reykjavík fimmtudaginn 30. október. Bæta þarf umgjörð kolefnisverkefna og minnka óvissu svo að þau verði almennt talin álitlegur kostur, bæði sem aðgerð í loftslagsmálum og til fjárfestinga.

Jóhann Páll Jóhannsson ráðherra ávarpar málþingið um stöðu kolefnismarkaða. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Á málstofunni var fjallað um markaðsstöðu og fjármögnun náttúrutengda lausna og að henni stóð Land og skógur ásamt ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte og loftslagsskránni International Carbon Registry (ICR) en þessir aðilar hafa unnið að skýrslu um sama viðfangsefni. Um fimmtíu manns tóku þátt í málstofunni og sköpuðust fróðlegar og uppbyggilegar umræður. Einnig þótti fundurinn hafa gagnast við að tengja betur saman persónur og leikendur á þessu sviði enda mynduðu þátttakendur fjölbreyttan hóp úr bæði einkageiranum og hinum opinbera.

Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, hóf málstofuna og nefndi meðal annars það starf að gæðamálum sem stofnunin hefur lagt áherslu á, svo sem með því að beita sér að byggja upp vottunarkerfi fyrir kolefniseiningar, Skógarkolefni fyrir nýskógrækt og Mýrkol fyrir endurheimt votlendis. Stofnunin legði mikið upp úr gæðamálunum sem sæist meðal annars á nýjum gæðaviðmiðum um val á landi til skógræktar, vinnu við ábyrga tegundanotkun í skógrækt, öflugar rannsóknir, vöktun og fleira.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði málstofuna og fjallaði meðal annars um nýtt landsframlag til loftslagsmála fram til ársins 2035 þar sem Íslendingar setja sér sjálfstæð markmið. Hann lagði áherslu á að ekki mætti spenna bogann of hátt heldur þyrfti að setja raunhæf markmið. Svo þyrfti að virkja alla geira samfélagsins til að markmiðin næðust. Um landnotkun væri sérstaklega skilgreint tölulegt markmið. Nú væri verið að kanna hvernig íslensk stjórnvöld gætu nýtt kolefnismarkaði til að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum samkvæmt sjöttu grein Parísarsamningsins þar sem leikreglur um alþjóðlega kolefnismarkaði eru skilgreindar. Ekki væri útilokað að hægt yrði að beita sjöttu greininni í nýútgefnu landsákvörðuðu framlagi Íslands.
Fyrra pallborð – Tenging við Parísarsamninginn
Tvennar pallborðsumræður fóru því næst fram á málþinginu. Fyrra pallborðið hófst með framsögu Guðmundar Sigbergssonar hjá ICR sem í kjölfarið stýrði umræðum um hlutverk stjórnvalda og tengingu við Parísarsamninginn. Í pallborðinu sátu Jóhannes B.U. Tómasson hjá Umhverfis- og orkustofnun, Finnur Ricart Andrason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri hjá Landi og skógi, og Helga Barðadóttir sem starfar í loftslagsteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Gunnlaugur fór meðal annars yfir þróun kröfusettsins Skógarkolefnis og nefndi að þegar á fyrstu stigum hefði komið í ljós áhugi á virkjun einkamarkaðarins í loftslagsmálunum. Nú væru tugir skógræktarverkefna komnir í vottunarferli undir Skógarkolefni. Hann sagði líka frá vinnunni við mótun sambærilegs kröfusetts fyrir votlendisverkefni sem kallast Mýrkol. Vonir stæðu til þess að um áramót yrði fyrsta verkefnið komið í gegnum vottun samkvæmt því kerfi og þar með fengist staðfesting á aðferðafræði þess. Mýrkol hefur nú lokið opinberu samráðsferli og eitt verkefni er komið í farveg í samstarfi við YGG Carbon.

Þörf á fjárhagslegum hvötum
Nokkuð var rætt í pallborðinu um stöðu kolefnismarkaða í íslenska stjórnkerfinu. Á síðasta ári kom út skýrsla starfshóps um kolefnismarkaði sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði á vormánuðum 2023, Kolefnismarkaðir - Áskoranir og tækifæri í íslensku samhengi. Þótt tiltölulega stutt sé frá útkomu hennar hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan svo sem vegna stjórnarskipta og vinnu við endurskoðun loftslagslaga sem sýnir að mikil hreyfing er á þessum málum. Rætt var líka um stöðu stofnana og sveitarfélaga í loftslagsmálunum sem er æði misjöfn. Allur gangur er á því hvort stofnanir og sveitarfélög hafa sett sér loftslagsstefnu. Þar skortir gjarnan bæði fjármagn og þekkingu og sömuleiðis vantar upplýsingar um hvernig staða þessara mála er hjá bæði stofnunum og sveitarfélögum. Rætt var um tækifæri á auknu samráði milli stofnana og sveitarfélaga til að auka þekkingu á málaflokknum, svo sem milli Lands og skógar, Umhverfis- og orkustofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Varðandi nýtingu kolefnismarkaða til að stuðla að kolefnishlutleysi var bent á bókina The Climate Casino eftir William Nordhaus, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Höfundurinn leggur mikla áherslu á að verðlagning kolefnis sé mikilvægt tæki í loftslagsbaráttunni. Nauðsynlegt sé að verðleggja losun gróðurhúsalofttegunda til að endurspegla raunverulegan kostnað af henni fyrir samfélagið. Síðan þurfi að fjárfesta í lausnunum. Komið hafi á daginn að virkur kolefnismarkaður sé mun áhrifaríkari hvatning til aðgerða en kolefnisskattar. Aftur á móti megi auka áhrif þessara skatta með því að gera loftslagsaðgerðir frádráttarbærar. Mikil hvatning yrði fólgin í því ef nýta mætti aðgerðir til lækkunar á slíkum gjöldum. Rætt var í því sambandi hvernig önnur lönd hafa unnið að samþættingu kolefnismarkaða og kolefnisskatta.
Þær náttúrutengdu aðgerðir sem Land og skógur vinnur að fela í sér margvísleg önnur tækifæri en aukna bindingu og minnkaða losun. Bent var á í umræðunni að mikilvægt væri að nýta líka jákvæð áhrif slíkra verkefna á borð við aukna líffræðilega fjölbreytni, vernd og eflingu vistkerfa. Sömuleiðis væru þarna tækifæri fyrir bæði sveitarfélög og bændur til virkrar þátttöku, meðal annars í því að búa til verðmæti með kolefniseiningum. Bent var á að samræmi skorti í meðferð mála hjá sveitarfélögum og gjarnan reyndist erfitt, dýrt og tafsamt að fá framkvæmdaleyfi fyrir verkefnum. Þar væri skortur á samræmdu verklagi hjá sveitarfélögum svo fólk vissi betur að hverju það gengi. Ýta þyrfti á eftir gerð svæðisáætlana hjá Landi og skógi til að skilgreina landið betur og hvaða svæði væru hentug til verkefna. Sömuleiðis bar nokkuð á góma þá stöðu að hugtakið kolefnishlutleysi hefur ekki verið skilgreint formlega. Vinna er hafin að því í ráðuneytinu.
Seinna pallborð – Hlutverk atvinnulífsins
Í seinna pallborðinu var rætt um hlutverk atvinnulífsins og fjármálakerfisins. Gunnar Sveinn Magnússon hjá Deloitte var með framsögu og stýrði umræðum sem þátt tóku í þau Sveinn Margeirsson hjá Brimi, Ásmundur Skeggjason hjá Skógálfum, Þráinn Halldórsson Lífeyrissjóði verslunarmanna, Ragnheiður Björk Sæmundsdóttir hjá Sporunum sem starfar fyrir Bændasamtökin og Hilmar Gunnlaugsson hjá YGG Carbon.

Í umræðunum var áberandi að fólki þótti mikilvægt að gott samtal væri í gangi milli hagaðila. Aðgerðir væru nauðsynlegar og ekki mætti hræðast mistök eða hnökra á verkefnum því slíkt væri til að læra af. Fram kom að torsótt væri að afla fjármagns til kolefnisverkefna með hefðbundnum leiðum í gegnum lánsfjármögnun eða fjárfestingar. Rætt var um tækifæri bænda og þar var bent á að bændur og aðrir landeigendur væru mjög fjölbreyttur hópur með ólíkar áherslur en mikinn áhuga væri þó þar að finna. Mikilvægt væri að verkefni væru atvinnuskapandi fyrir bændur og að þeir sæju ávinninginn af þeim.
Í umræðu um aðkomu lífeyrissjóða að loftslagsverkefnum kom fram að sjóðirnir fylgdust með af hliðarlínunni þar sem þeir hefðu flestir sett sér markmið um að auka hlutfall sjálfbærra fjárfestinga. Aðkoma þeirra væri þó ekki líkleg fyrr en komnar væru haldbærar afurðir eins og loftslagssjóðir, skuldabréf og annað sem stæðist kröfur sjóðanna um ávöxtun, áhættu og tímalengd. Svo var að skilja á þátttakendum í pallborði að vel væri mögulegt að búa til tækifæri sem fullnægðu kröfum lífeyrissjóða en þar myndi betri fyrirsjáanleiki hjálpa mikið til. Í þeim efnum væri stjórnsýslunnar að bæta úr.
Ein hindrun fyrirtækja sem vilja fjárfesta í innlendum vottuðum kolefniseiningum er óvissan um hvort og hvernig fyrirtækin geta talið slíkar einingar fram til að mæta markmiðum sínum um kolefnishlutleysi. Til að eyða þeirri óvissu þyrftu stjórnvöld að vinna að því með atvinnulífinu að skilgreina hvað felist í kolefnishlutleysi. Ekki er síður mikilvægt að viðurkenna mikilvægi innlendra vottaðra kolefniseininga, svo sem úr skógrækt og endurheimt votlendis, til jöfnunar á þeirri kolefnislosun sem ekki er hægt að koma í veg fyrir. Slíkt myndi auka eftirspurn á markaði og um leið möguleika framkvæmdaraðila til að fjármagna loftslagsverkefni.
Talsvert enn í land
Undir lok fundarins var rætt nokkuð um flóknari atriði eins og mögulega sölu kolefniseininga úr landi sem myndu þá nýtast þar á móti losun en ekki innanlands á Íslandi, það sem í loftslagsfræðunum er kallað tilsvarandi jöfnun eða (e. Corresponding Adjustment) á loftslagsbókhaldi landa. Slíkt gæti falið í sér tækifæri til að fá hærra verð fyrir einingarnar. Einnig var rætt um hvort eðlilegt væri að íslenska ríkið teldi fram í kolefnisbókhaldi landsins bindingu verkefna sem hefðu orðið til að frumkvæði og með fjármögnun valkvæða eða frjálsa kolefnismarkaðarins. Nokkur umræða varð um þetta á málstofunni. Fram kom að þetta er eitt af því sem er í mótun hjá stjórnvöldum en ljóst að skiptar skoðanir eru á viðfangsefninu
Mikil ánægja var með málþingið hjá bæði aðstandendum og gestum. Umræður þóttu gagnlegar og góð innsýn fékkst í stöðu málefna kolefnismarkaðarins hérlendis sem erlendis auk þess sem tengsl styrktust milli mismunandi aðila sem málið snertir. Niðurstaða málþingsins er að Íslendingar eru komnir vel af stað í málefnum kolefnismarkaða en talsvert er óunnið við að búa í haginn svo að kolefnisverkefni fái almenna viðurkenningu sem vænleg leið til aðgerða í loftslagsmálum og eftirsóttur fjárfestingarkostur. Málþingið hefði verið gott innlegg í umræðuna en ýmislegt væri þó óunnið enn til að árangur næðist.
Eins og áður greinir vinna Land og skógur, Deloitte og ICR nú að útgáfu skýrslu um markaðsaðstæður og fjármögnun náttúrutengdra lausna og munu þær umræður sem spunnust á málstofunni án efa reynast skýrsluhöfundum vel. Gert er ráð fyrir að skýrslan verði gefin út fyrir lok árs.
