Keðjusagarnámskeið í Vaglaskógi
5. febrúar 2024
Garðyrkjuskólinn - FSu býður upp á námskeið í trjáfellingum og meðferð keðjusagar dagana 18.-20. apríl í starfstöð Lands og skógar í Vaglaskógi Fnjóskadal. Hámarksfjöldi þátttakenda er tíu.
Námskeiðið er öllum opið. Það hentar bæði byrjendum og þeim sem hafa notað keðjusagir en vilja bæta fellingartækni sína eða öðlast meiri þekkingu á meðferð og umhirðu saga. Hámarksfjöldi þátttakenda er 10.
Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt.
Fyrsti dagur er bóklegur þar sem meðal annars er farið yfir fellingartækni, öryggisatriði við
fellingu trjáa og líkamsbeitingu. Farið verður yfir leyfi og öryggissjónarmið varðandi fellingu trjáa í þéttbýli. Einnig verður fjallað um val á trjám til fellinga og komið inn á grisjun skóglenda, trjáþyrpinga og garða.Á öðrum degi fá nemendur að kynnast innviðum keðjusagarinnar með því að taka þær í sundur. Farið verður yfir það hvernig framkvæma eigi einfalda bilanaleit í söginni, ásamt hefðbundnu viðhaldi, þrif sagar og brýningu keðju.
Loks verður einn og hálfur verklegur dagur í trjáfellingum og grisjun í skógi, þar sem lögð verður áhersla á rétta fellingartækni og uppröðun viðarins.
Þeir nemendur sem eiga keðjusög, keðjusagarbuxur, keðjusagarstígvél eða hjálm eru beðnir að taka búnað sinn með á námskeiðið. Aðrir geta fengið búnaðinn lánaðan á námskeiðinu.
Kennari: Björgvin Örn Eggertsson skógfræðingur hjá Garðyrkjuskólanum - FSu (Fjölbrautaskóla Suðurlands).
Tími: (3x)
- Fim. 18. apr. kl. 9-17.30.
- Fös. 19. apr. kl. 9-17.30.
- Lau. 20. apr. kl. 9-16.Staður: Hjá Landi og skógi, Vöglum í Fnjóskadal (28 kennslustundir). Námskeiðið er á framhaldsskólastigi og má meta til 1 einingar af námi í garðyrkjufræðum.
Verð: 79.000 kr. (kennsla og gögn innifalin í verði).
Skráning: Í netfangið gardyrkjuskolinn@fsu.is.
Skráningarfrestur er til 10. apríl.