Jafnrétti er ákvörðun hjá Landi og skógi
16. október 2025
Land og skógur fullnægir kröfum Félags kvenna í atvinnulífinu um hlutfall kvenna í framkvæmdaráði stofnunarinnar. Stofnunin hlaut því viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í ár, rétt eins og í fyrra. Tveir fulltrúar stofnunarinnar gróðursettu tré í Jafnréttislundinum á viðurkenningarhátíð Jafnréttisvogarinnar.

Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, tók við viðurkenningunni ásamt Hönnu Þóru Hauksdóttur mannauðsstjóra. Edda Linn Riese skjalastjóri og Tómas Halldórsson Alexander, sem nýlega hóf störf sem sérfræðingur í landupplýsingakerfum hlutu svo þann heiður að gróðursetja tré í Jafnréttislundinum sem fulltrúar Lands og skógar.

Sorglega lítið breyst
En jafnvel þótt viðurkenningarnar sem veittar voru hátíðinni kunni að virðast margar kemur fram í grein eftir Bryndísi Reynisdóttur, verkefnastjóra Jafnvægisvogar FKA í Viðskiptablaðinu að sorglega lítið hafi breyst á liðnu ári í jafnréttismálum og stöðu kvenna í stjórnunarstöðum. Konur séu í minnihluta í æðstu stjórnunarstöðum á Íslandi, aðeins 21% framkvæmdstjóra konur og af 27 skráðum félögum í Kauphöll Íslands aðeins fjórar konur forstjórar. Það eru ekki nema um fimmtán prósent.
Hún segir mikilvægt að „hvert og eitt fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag skoði stöðu sína og krefjist þess að kynjahlutfall í æðstu stjórnunarstöðum sé sem jafnast, því jafnrétti er ekkert annað en ákvörðun“.
Á meðfylgjandi myndum sést hópurinn sem tók við viðurkenningum á hátíðinni í hátíðarsal Háskóla Íslands 9. október, Ágúst Sigurðsson og Hanna Þóra Hauksdóttir með viðurkenninguna og svo þau Edda Linn og Tómas, fulltrúar Lands og skógar við gróðursetningu á birki í Jafnréttislundinum.
Jafnréttismælaborð FKA
Með sérstöku mælaborði á vef FKA heldur félagið utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Þar er að finna helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í atvinnulífinu á Íslandi. Auk þess má sjá þar kynjahlutföll brautskráðra úr háskólum hverju sinni, stöðu kynjanna innan atvinnugreina og GemmuQ-kynjakvarða fyrir félög skráð á markaði. Mælaborðið er að finna á slóðinni www.fka.is/verkefni/jafnvaegisvogin/maelabord
Umræða um jafnréttismál, endurtekið efni? – grein Bryndísar Reynisdóttur


